Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar ákvað á fundi sínum þann 4. nóvember s.l. breytingar á starfsemi í Árskógarskóla.
Gott starf hefur verið unnið í Árskógarskóla, bæði á leikskóla og grunnskólastigi undanfarin ár. Í ljósi fækkunar barna á grunnskólastigi í Árskógarskóla og með hagsmuni barna að leiðarljósi var samþykkt að frá og með haustinu 2026 þá verði grunnskólastig Árskógarskóla fært til Dalvíkurskóla.
Með þessum breytingum telur sveitarstjórn að verið sé að koma betur til móts við þarfir barnanna. Lögð verður rík áhersla á að leikskóli verði áfram starfræktur í Árskógarskóla en fastráðnu starfsfólki á grunnskólastigi verði boðin tilfærsla á störfum innan fræðslustofnanna Dalvíkurbyggðar.
Leikskóladeildin Kötlukot í Árskógarskóla verður færð undir stjórn leikskólans á Krílakoti. Einnig munu stjórnendur leikskólans á Krílakoti taka yfir stjórn grunnskólans í samráði við skólastjóra og deildarstjóra yngsta stigs í Dalvíkurskóla frá 1. nóvember til lok grunnskóla í Árskógarskóla. Skólastjóri Dalvíkurskóla mun sjá um fjármál Árskógarskóla til 31. desember 2025.
Mynd/Dalvíkurbyggð



