Kótilettukvöld Siglfirðinga var haldið með pompi og prakt í veitingastaðnum Catalinu í Reykjavík um helgina. Samkvæmt Gunnari Trausta Guðbjörnssyni, einum skipuleggjanda kvöldsins, mættu um 85 gestir.

„Allir fengu sér vel á diskinn og almennt var fjör og góður rómur gerður að veislunni,“ segir Gunnar í samtali við trolli.is, sem lýsir kvöldinu sem einstaklega ánægjulegu og samheldnu.

Gestir kvöldsins komu víða að, bæði heimafólk frá Siglufirði og brottfluttir Siglfirðingar sem tilheyra Siglfirðingafélaginu. Félagið telur um 3000 manns og heldur reglulega viðburði til að efla tengsl og samfélagsanda þeirra sem eiga rætur í firðinum.

Hverjir stóðu að skipulagningu kvöldsins?

„Siglfirðingafélagið stóð að veislunni,“ segir Gunnar Trausti Guðbjörnsson, aðspurður um hverjir stóðu að skipulagningu kvöldsins.

„Kótilettan var endurvakin til vegs og virðingar þegar Kótilettufélag Íslands var stofnað fyrir nokkrum árum af mönnum í Mývatnssveit. Svo tókum við okkur nokkrir gamlir togarajaxlar af Hafliða SI 2 saman og stofnuðum Kótilettufélag togarajaxla. Síðan þá hefur kótilettuæðið gripið þjóðina og Knattspyrnufélag Siglfirðinga heldur svona veislu einu sinni á ári. Já, og jafnvel er keyrt kótilettunum heim til eldri borgara,“ bætir hann við brosandi.

Kótilettan er hluti af þjóðarsálinni og Kótilettukvöldið minnir á þá hefð.

„Kótilettan á sér búfestu í þjóðarsálinni. Siglfirðingar eru aldir upp við kótilettu sem sunnudagshátíðarmat,“ útskýrir Gunnar. Hann rifjar jafnframt upp að á Siglufirði hafi um árabil verið rekinn veitingastaður að nafni Matstofan, þar sem kótilettur voru í hávegum hafðar.

„Menn sögðu mér frá því að hafa komið á Skipamót á Siglufirði og fengið þar kótilettur á Matsofanum. Þegar þeir komu heim til Akureyrar ákváðu þeir að þetta yrði jólamaturinn það árið,“ segir hann hlæjandi.

Kótilettukvöld Siglfirðinga hefur nú verið haldið tvisvar, en samkvæmt Gunnari er ljóst að hefðin sé aðeins rétt að byrja.

„Við erum bara að komast á flug,“ segir hann. Stemningin á viðburðinum var hreinlega frábær.

„Við sýndum myndir frá Siglufirði og sögðum nokkrar léttar sögur með. Því var vel tekið,“ segir Gunnar. Að auki var boðið upp á sérstaka myndasýningu með skyggnilýsingum sem vakti mikla lukku meðal gesta.

Kótilettukvöldið sameinaði gamlar minningar og nýjar tengingar, og ljóst er að þessi bragðgóða hefð mun halda áfram að lifa meðal Siglfirðinga, hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

Myndir: Gústaf Guðbrandsson