Nýlega kom út bókin Kormákseðli þjóðskáldsins. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, vinkonur hans og ástkonur.
Höfundur er Ólafsfirðingurinn Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðingur og er þetta 26. bók hans. Davíð var fámáll um einkalíf sitt og lengst af hefur lítið verið vitað með vissu um samskipti hans við hitt kynið. Margt hefur þó verið sagt og skrifað um ástamál Davíðs, oftar en ekki byggt á hæpnum forsendum.
Nú hafa sendibréf Davíðs til tveggja kvenna verið gerð opinber. Þau varpa ljósi á einkalíf skáldsins og sýna nýja hlið á „manninum Davíð.“
Frásögnin af ástamálum hans í þessari bók byggir að stórum hluta á þessum bréfum. En þótt Davíð ætti kærustur og ástkonur var hann einhleypur alla ævi. Mörgum hefur þótt undarlegt að „þessi gleði- og ástamaður“ yrði einsetumaður sem aldrei festi ráð sitt. Hver var ástæðan? Að vera einn í ró og næði á náðarstundinni, andartakinu þegar skáldskapargyðjan gerði vart við sig, skipti Davíð höfuðmáli. En fleira kom þó til. Var Kormákseðlinu líka um að kenna eins og hann ýjaði raunar að sjálfur. Svarið er að finna í bókinni.
Margar bóka Friðriks tengjast sögu Norðurlands. Má nefna þriggja binda verk um sögu Ólafsfjarðar, Hundrað ár í Horninu 1–3, Sögu Hvammstanga 2, Langnesingasögu 1–2, Snert hörpu mína (ævisaga Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi) og bókina um Hákarla-Jörund sem kom út árið 2021.
Það er bókaforlagið Skrudda sem gefur Kormákseðli þjóðskáldsins út.
Á forsíðumynd er höfundur bókar, Friðrik G. Olgeirsson.
Mynd/aðsend



