Boðað hefur verið til blaðamannafundar á Akureyri í næstu viku þar sem kynnt verður endurreisn flugfélagsins Nice Air. Þýskur athafnamaður stendur að baki áformunum, segir á vefsíðu RÚV
Nice Air hóf áætlunarflug í júní 2022 og rak flug milli Akureyrar og Danmerkur, Bretlands og Spánar í um tæpt ár. Rekstri félagsins var hætt í apríl 2023 og það tekið til gjaldþrotaskipta. Engar eignir fundust í þrotabúinu og því fékkst ekkert upp kröfur sem námu samtals 184 milljónum króna.
Þýski athafnamaðurinn Martin Michael hyggst nú endurvekja flugfélagið. Hann boðar til blaðamannafundar í flugsafninu við Akureyrarflugvöll í næstu viku. Michael segir í stuttu samtali að hann hafi yfir þrjátíu ára reynslu í flugrekstri. Hann hafi starfað hjá Nice Air um tíma og segist þekkja vel aðdraganda og rekstur félagsins á sínum tíma.
Michael segir áformað að hefja rekstur Nice Air að nýju um miðjan febrúar á næsta ári. Að öðru leyti vísaði hann nánari upplýsingum til blaðamannafundarins.
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hefur verið bókað flug fyrir nýtt flugfélag um Akureyrarflugvöll 19. febrúar.
Mynd/Nice Air




