„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Njörður S. Jóhannsson hjá leifum gamallar sjóbúðar á kambinum upp af Hraunakróki í Fljótum.

Víst má telja, að nýútkomin bók, Langt var róið og þungur sjór, taki sér verðugan sess í bókaflóru vetrarins, enda varpar hún nýju ljósi á sögu norðlenskra fiski- og hákarlaskipa sem lengi hafa verið meðal undirstöðuatvinnulífs Íslendinga.

Höfundur bókarinnar er Sigurður Ægisson, guðfræðingur og þjóðfræðingur, sóknarprestur á Siglufirði, og Hólar bókaútgáfa ehf. gefur verkið út.

„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Um eða upp úr 1850 er komið nýtt og öflugt hákarlaskip að Látrum á Látraströnd við utanverðan Eyjafjörð austan til, 38 fet á lengd, 11 fet og 4 tommur á breidd og 4 fet á dýpt. Jónas (1821–1897), einn af sjö börnum Jóns Jónssonar (1791–1865) úr Fjörðum og Jóhönnu Jóhannsdóttur (1797–1865) frá Grenivík, sem þangað höfðu flust árið 1822, mun hafa smíðað það. Þetta er Látra-Felix. Hér má sjá líkan Njarðar af því fleyi.

Bókin byggist á ævistarfi Njarðar Sæbergs Jóhannssonar, hagleiks- og handverksmanns, en enginn núlifandi Íslendingur þekkir betur til báta- og skipasögu Norðlendinga fyrr á öldum en hann. Njörður hefur um áratugaskeið leitað heimilda, grandskoðað örnefni og minjar og safnað frásögnum úr Fljótum í Skagafirði og nágrenni.


Í frístundum sínum hefur hann endurlífgað þessa sögu á einstakan hátt með því að smíða nákvæm líkön af mörgum þessara sögufrægu fiski- og hákarlaskipa í hlutföllunum 1 á móti 12. Hvert smáatriði er unnið af natni og innlifun sem tekur andann frá manni.

„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Sigurður Ægisson

Handverk sem gerir óskráða sögu sýnilega

„Þetta er listasmíði“

segir Sigurður Ægisson í viðtali við Trölla. Og ekki er seglabúnaðurinn lakari, sem eiginkona Njarðar, Björg Einarsdóttir, saumaði af einstakri nákvæmni.

„Það er í raun allt handverkið, frá a–ö, sem gerir þessi líkön svo einstök.“

Njörður er fæddur á Siglufirði árið 1945 og hefur alla tíð búið í bænum. Tengsl hans við sjósögu og skipasmíði eru sterk, enda á hann rætur í hákarlamennsku og skipasmíðum í Fljótum. Langafi hans í móðurætt, Kristján Jónsson í Lambanesi, var á Fljóta-Víkingi í áratug og reri allt norður fyrir Kolbeinsey.

Þessi arfleifð skín skært í verkum Njarðar og sú saga sem hann hefur unnið svo ómetanlega heimildaskráningu um í gegnum líkanasmíðina.

„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Farsæll (1). Horft ofan á sýrublöndukút aftur í skut og lengst til vinstri má sjá í beitukassann með rauð- og mislitum steinum, sem eiga að tákna dragúldið kjöt.

Af hverju núna?

Aðspurður hvers vegna honum hafi fundist mikilvægt að festa rannsóknir og líkön Njarðar á blað einmitt nú segir Sigurður:

„Af því að þessar upplýsingar liggja ekkert á lausu, margar hverjar. Njörður hefur verið að viða að sér þessu efni í marga áratugi, héðan og þaðan. Hann fékk mikið frá móðurafa sínum og föður hans, sem báðir þekktu þessa sögu í þaula og miðluðu honum henni eins og hún var. Þarna er geymd þekking sem annars hefði glatast.“

Bókin er þó ekki eingöngu um skip og smíði. Hún varðveitir líka sögur um forfeður okkar og formæður og þau gríðarlegu áföll sem brotið hafa líf margra.

„Já, þetta hefur verið erfitt líf þarna,“

segir Sigurður.

„Skipstaparnir og annað. Maður skilur ekki hvernig fólk gat höndlað öll áföllin, haldið áfram með daglegt líf sitt. En auðvitað var það af því að ekkert annað var í boði en að gefast ekki upp.“

„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Vetrarskipið Hyltingur. Þar er allt til staðar, ofan í fínustu smáatriði.

Í bókinni birtist einnig einstök frásögn um helga athöfn sem tíðkaðist í Fljótum þegar skipi var ýtt á flot í róður. Þá sneru menn því réttsælis einn hring og síðan verið farið með sjóferðabænir og ritningarlestur áður en haldið var út á opið hafið.

Listmálarinn Bjarni Jónsson varð svo uppnuminn af þessari sögu, sem hann frétti af munni Njarðar, að hann málaði athöfnina árið 1997 og varð málverkið síðar hluti af safni Þjóðminjasafns Íslands.

„Þetta er eitt af fjölmörgu sem Njörður bjargaði frá glötun,“

segir Sigurður.

„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Veturinn 1866–1867 smíðaði Jón Christian Stephánsson þennan áttæring fyrir Einar B. Guðmundsson, bónda og alþingismann á Hraunum í Austur-Fljótum. Skipið var ætlað til hákarlaveiða og almennra fiskveiða og gekk undir nafninu Hraunaskipið.

Fróðlegur kafli um hákarlamennsku

Einn kafla bókarinnar ritar Dalrún Kaldakvísl, doktor í sagnfræði, sem hefur sérhæft sig í hákarlaveiðum. Hún hefur jafnframt skoðað líkön Njarðar og segir Sigurður að hún hafi verið svo hrifin af þeim að hún átti vart orð yfir fegurð og nákvæmni handverksins. Kafli hennar er afar fróðlegur og dregur upp skýra mynd af hákarlamennsku fyrri alda.

Hvernig mun bókin nýtast framtíðarkynslóðum?

„Vonandi opnar þetta augu fólks fyrir því hvernig þessi heimur var í raun,“

segir Sigurður.

„Þetta eykur virðingu fyrir baráttu forfeðra okkar og -mæðra. Þetta var enginn dans á rósum, en dýrmætt að fá að vera andlit á þessum glugga sem lesendum er boðið að horfa inn um.“

„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Málverk Bjarna Jónssonar af gömlum sið í Fljótunum, gert eftir lýsingu Njarðar. Í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Framhald?

Nú þegar bókin er komin út er spurt hvort framhald sé í kortunum. Sigurður segir að Njörður vinni nú að stærsta líkani sínu hingað til. Það er af Hermóði, fyrsta þilskipi Hákarla-Jörundar, byggðu veturinn 1855–1856.

„Ég mun taka viðtal við Njörð þegar þar að kemur og mynda skipið í bak og fyrir og setja grein í Morgunblaðið. En að öðru leyti hefur ekkert verið ákveðið um framhald á Njarðarbók. En hver veit?“

„Þetta er listasmíði“ segir Sigurður Ægisson um handverk Njarðar Sæbergs - Langt var róið og þungur sjór, lítur dagsins ljós

Bókarkápan.

Myndir: úr einkasafni / Sigurður Ægisson