Drónastöðin sem sett hefur verið upp á slökkviliðsstöðinni á Siglufirði er hluti af tilraunaverkefni lögreglu þar sem sjálfvirkar drónadokkur eru nýttar til að stytta viðbragðstíma við útköll. Með þessu er hægt að senda dróna fljótt á vettvang, sérstaklega á stöðum þar sem lögregla er ekki mönnuð allan sólarhringinn.
SR vélaverkstæði sá um smíði og uppsetningu festinga fyrir drónastöðina á Siglufirði. Fyrirtækið smíðaði einnig sambærilegar festingar fyrir stöð á Akureyri og vinnur nú að undirbúningi fyrir uppsetningar á fimm öðrum stöðum á Norðurlandi. Verkefnið fól í sér smíði burðarvirkis, aðlögun festinga að húsnæðinu og frágang sem hentar aðstæðum á staðnum.
Burðarvirkið er úr galvaníseruðu stáli og hannað til að þola íslenskt veðurfar, þar á meðal vind, snjó og seltu.
Verkefnið á Siglufirði er dæmi um hvernig heimamenn koma að uppbyggingu nýrra innviða fyrir öryggisþjónustu og að lausnin nýtist jafnt í minni byggðum og stærri.





