Áramót eru tímamót, þegar eitt ár endar og annað markar nýtt upphaf.

Við kveðjum hvert ár með margvíslegum tilfinningum sem byggjast á reynslu og upplifun okkar af því ári sem er að líða. Þó ég voni svo sannarlega að flestir kveðji gamla árið með hlýju og eigi frá því góðar minningar, þá veit ég að margir eiga um sárt að binda og sakna ástvina sinna. Þá held ég að við flest stöldrum við, lítum yfir farin veg um áramót og förum yfir það sem á daga okkar hefur drifið, vegum það og metum.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Mynd: Dalvíkurbyggð

Sveitarfélagið hefur á árinu 2025 unnið markvisst að mikilvægum framkvæmdum, styrkingu innviða og viðhaft ábyrga fjármálastjórn, með það að markmiði að tryggja traustan rekstur og bætta þjónustu til framtíðar. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á að skapa aðstæður sem styðja við jákvæða mannfjöldaþróun, fjölbreytt búsetuúrræði og öflugt samfélag fyrir fólk á öllum aldri.

Mikil áhersla sveitarstjórnar á skipulagsmál hefur nú þegar skilað sér og er mun meira í farvatninu á næsta ári. Nýtt aðalskipulag fyrir Dalvíkurbyggðar mun taka gildi sem og deiliskipulög fyrir nýja íbúabyggð á Árskógssandi og á Dalvík.

Þá voru allar íbúðir sveitarfélagsins seldar Leigufélaginu Bríet og á í framhaldinu að vinna að því að byggja íbúðir í samvinnu við félagið. Þá er sveitarfélagið búið að samþykkja stofnframlag vegna byggingu íbúða í samvinnu við Brák Íbúðafélag hses. Þær var fyrirhugað að byggja við Dalbæ, en eins og allir vita hefur verið fallið frá þeirri staðsetningu, en alls ekki frá áformum um að byggja leiguíbúðir. Þessi tvö verkefni munu koma á virkum leigumarkaði í sveitarfélaginu.

Sundlaugin okkar var mikið endurnýjuð í sumar og flísalögð í hólf og gólf, með þessari framkvæmd á viðhald við mannvirkið að minnka og mun kalla á að lokað verði í tæpa viku í byrjun hvers sumars og tíminn notaður til viðhalds. Ef þetta er gert einu sinni á ári þá eigum við að vera í góðum málum með þetta mikilvæga mannvirki. Það er nefnilega svo að Dalvíkurbyggð stendur sig vel hvað varðar fjármögnun íþrótta- og æskulýðsmála, því rúm 15% skatttekna sveitarfélagsins fara í þann málaflokk.

Þá eru stór verkefni framundan eins og bygging slökkvistöðvar, vatnstanks við Upsa og byggðasafns. Teikningar af slökkvistöð verða tilbúnar fyrir vorið, það kom smá slaki í vinnuna þar sem ekki er einhugur um staðsetningu, en við stefnum á að taka þá umræðu og ljúka á nýju ári. Varðandi byggðasafnið þá hefur verið tekið ákvörðun um að byggja við Menningarhúsið Berg, með því næst fram hagræðing meðal annars í starfsmannahaldi þar sem allt starfsfólk safnanna verður á sama stað og af því leiðir að hægt verður að auka opnunartímann og gera meira úr þeim menningarverðmætum sem við eigum. Ég held að við höfum öll tekið eftir því hvað það er alltaf mikið um að vera í Menningarhúsinu Bergi og ekkert okkar vill vera án þessa mikilvæga starfs. Þá fer vatnstankurinn í útboð í byrjun janúar næst komandi. Allt eru þetta mikilvæg verkefni sem munu taka á fjárhag sveitarfélagsins.

Okkur er að fjölga hægt og bítandi samkvæmt Íbúasýn Þjóðskrár erum við nú á gamlársdag, 1972 talsins, en vorum 1828 talsins samkvæmt Hagstofu á árinu 2022. Þetta sjáum við meðal annars á því að leikskólinn Krílakot er orðinn fullsetinn og mikilvægt að huga að því að leysa úr þeirri stöðu. Þá er grunnskóladeild Árskógsskóla að fara yfir í Dalvíkurskóla frá hausti 2026 og þar með verður rekinn einn grunnskóli í sveitarfélaginu.

Árið sem er að líða er síðasta heila ár kjörtímabilsins og hafa verkefnin verið fjölmörg, sum krefjandi en þó umfram allt skemmtileg. Framundan er nýtt ár með áframhaldandi uppbyggingu og tækifærum sem við munum mæta með samvinnu, festu og framtíðarsýn.

Ég vil þakka öllu því góða starfsfólki sem sveitarfélagið hefur yfir að búa fyrir þeirra óeigingjarna starf og að mæta áskorunum með jákvæðum hætti. Ég þakka ykkur öllum ómetanlegt framlag ykkar til þess að gera gott sveitarfélag betra.

Horfum áfram jákvæð og glöð fram á veginn og verum lausnamiðuð í verkefnum okkar.

Ég vil þakka kjörnum fulltrúum, fyrirtækjum, félagasamtökum og íbúum öllum fyrir þeirra mikilvæga framlag. Samvinna okkar er lykillinn að áframhaldandi þróun og velgengni samfélagsins.
Ég óska íbúum Dalvíkurbyggðar gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári.

Gleðilegt nýtt ár.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir
sveitarstjóri