Trölli.is hefur á þessu ári fengið sendann launaseðil öryrkja í nokkur skipti. Hér er hægt að sjá svart á hvítu þann blákalda raunveruleika sem öryrkjar á Íslandi búa við.

Öryrkinn sem þennan launaseðil á lenti í slysi á unga aldri og hefur ekki náð fullum bata eftir það. Með árunum hefur þetta slys haft aukin áhrif á líf og heilsu sem hefur gert það að verkum að hann er ófær um líkamlega vinnu.

Nú höfum við fengið sendan launaseðil fyrir nóvember 2020 og þessar línur með frá öryrkjanum.

Hvernig verður sá dómur ?

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið undanfarið um meðferð vistmanna Arnarholts fyrir hálfri öld segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. “Mikilvægt er að komast til botns í hvað gerðist í Arnarholti og víðar, segir heilbrigðisráðherra. Frásagnir af þeirri meðferð sem vistmenn í Arnarholti sættu séu hræðilegar og átakanlegar. Ráðherra segist ætla að beita sér eins og henni sé unnt til að allt verði dregið fram í dagsljósið”. 

Víst var þetta hræðileg og átakanleg meðferð sem vistmenn urðu fyrir. Ef rýnt er í söguna með nútímagleraugum eigum við ekki orð yfir hvernig svona gat viðgengst fyrir 50 árum.

Ég spyr jafnframt – ef rýnt verður í söguna eftir 50 ár á meðferðina á öryrkjum, hvernig verður sá dómur réttlættur að öryrkjar á Íslandi voru sveltir árið 2020 ?

Í apríl síðastliðinn skrifaði ég:

“Ég er svo hræddur, ekki bara við covid-19 heldur hvernig fer fyrir okkur sem ekki getum unnið vegna veikinda. Ég hef viljað trúa því að hagur okkar færi að vænkast, en nú er ég logandi hræddur. Ég er ánægur með að stjórnvöld taki upp hanskann fyrir þá sem ekki geta unnið vegna covid-19 – þá sem þurfa að vera í sóttkví, eða einangrun. Einnig þá sem missa vinnuna tímabundið eða alfarið. En öryrkjunum sem lepja dauðann úr skel og hafa gert árum saman, hafa tekjur langt undir viðmiðunartekjum rétta þeir 20.000 kr”.

Jólamaturinn verður étinn úr eigin nefi

Á dögunum þegar ég var að elda kvöldmatinn sem samanstóð úr 2ja daga gömlum grjónagraut og hafragraut síðan um morguninn, hugsaði ég með mér að nú væri illt í efni.

Allar nauðsynjar hafa hækkað töluvert vegna styrkingu krónunnar og ég sé fram á algjöra hörmung í desember. Ég get einfaldlega ekki lifað og sé fram á að hátíðarmaturinn verði étinn úr eigin nefi.

Langt umfram hækkanir í venjulegu árferði 

Í fréttum á ruv kom fram að margir hafa eflaust orðið varir við að verð á mat og drykkjarvöru hefur hækkað undanfarið, nánar tiltekið um 7,4% á síðastliðnu ári. Heilt yfir hefur innflutt mat- og drykkjarvara hækkað um 11% á árinu en sú innlenda um rúm 5%.

Ég á hreint ekki til orð til að lýsa hugsunum mínum í garð stjórnvalda og þeirra sem ekki taka upp hanskann fyrir öryrkja, þvílíkur skepnuskapur er að fara svona illa með þá sem ekki geta borið hönd yfir höfði sér.

Sjá fyrri fréttir: Launaseðill öryrkja

Launaseðill öryrkja í nóvember 2020

Texti og mynd/aðsent