Alls voru á fimmta hundrað mál skráð hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra í janúarmánuði. Verkefni lögreglunnar á landsbyggðinni eru oft æði fjölbreytt, allt frá því að flagga íslenska fánanum á nýársdag að því að leita að týndu barni.
Lögreglan var til aðstoðar við borgarana í 15 tilvikum, algengustu aðstoðarbeiðnir eru vegna einstaklinga sem eiga við einhvers konar andlegan vanda en þá kom lögreglan einnig til aðstoðar vegna meðvitundarleysis, ölvunarástands einstaklings og ófærðar á vegum. Lögreglan var til aðstoðar við aðra opinbera aðila í sex málum, ýmist vegna heilbrigðis- og/eða barnaverndarmála, eða til aðstoðar við Vegagerðina. Tæplega 30 forvarna- og fræðsluverkefni voru skráð í janúar, en þau eru flest vegna samráðsfunda við aðrar stofnanir, heimsóknir í skóla eða afskipti af ungmennum yngri en 18 ára. Tilkynningar lögreglu til barnaverndar í janúar voru þrjár talsins, sem er talsvert minna en alla jafna.
Lögreglan viðhefur umtalsvert eftirlit með skemmtanalífi íbúa. Nú er þorrablótsvertíð hafin og gera má ráð fyrir því að allir ökumenn sé látnir blása í áfengismæli er þeir yfirgefa slíka skemmtun. Fyrstu tvær helgar í þorra má gera ráð fyrir því að um 2-300 ökumenn hafi verið látnir blása víðsvegar um embættið. Þá var lögregla til aðstoðar, þegar einstaklingur á þorrablóti í dreifbýli átti í vandræðum með heimferð. Einn einstaklingur hefur þurft að gista fangageymslur það sem af er þorrablótsvertíðinni. Þrátt fyrir að einn, sé einum of mikið, þá hafa þorrablótin gengið mjög vel það sem af er og væntum við þess að svo verði áfram.
Þá var tilkynnt um hvalreka rétt við umdæmamörk embættisins að vestanverðu líkt og frægt er orðið. Hrossin eiga það til að flækjast utan girðinga þegar snjór er yfir í öllu og kom lögreglan að sex málum er varða dýr á vegum.
Eitt af daglegum verkefnum lögreglumanna er eftirlit með umferð. Á fjórða tug einstaklinga voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu, sá sem hraðast ók var á 128 km. hraða á Norðurlandsvegi. Öllum hraðakstursmálum var lokið með sekt, langflestir sem afskipti voru höfð af óku á 110-113 km. hraða. 14 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu, engin alvarleg slys voru á mönnum en eitthvað um eignartjón. Þá var einstaklingur stöðvaður þar sem ökutæki hans var án skráningarmerkja og ekki vátryggt, og höfð voru afskipti af öðrum einstaklingi sem ekki hafði tilskilin réttindi til aksturs með eftirvagn. Í þremur málum voru einstaklingar stöðvaðir, grunaðir um akstur um áhrifum ávana- og/eða fíknilyfja og tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur.
Tilkynnt var um tvo bruna, báða í iðnaðarhúsnæði. Þá var tvívegis tilkynnt um tjón vegna slita á ljósleiðara og í öðru tilvikinu hafði lögregla fasta viðveru í viðkomandi bæjarfélagi á meðan að á viðgert stóð.
Mynd/Lögreglan á Norðurlandi vestra