Milljónir lífvera – á milljónir ofan – tortímast þegar glóandi hraunelfur flæðir yfir landið. Allskyns gróður; mosar, skófir, lyng og blómjurtir brenna. Skordýr af ýmsu tagi; sofandi köngulær og flugur stikna í hýði sínu.

Fá spendýr búa hins vegar á slóðum eldgossins. Þó hefur refur sést skokka í vetrarfeldi sínum fram hjá vefmyndavél Rúv með eldtungurnar í baksýn.

Hagamýs búa dreift víða um land og ein agnarlítil náðist á myndavél Siglfirðings nokkurs sem var á ferð nálægt gosstöðvunum nú á dögunum. Líklega á flótta undan tortímingunni.

Mynd: MÖ