Í dag, 1. maí birtist á vef Einingar Iðju eftirfarandi:

Íslenskt verkafólk fór í sína fyrstu kröfugöngu á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks 1. maí 1923. Það styttist því óðum í aldarafmæli. Frá árinu 1966 hefur 1. maí verið löggildur frídagur á Íslandi. 

Þó aðbúnaður í dag sé um flest gjörólíkar aðstæðum vinnandi fólks árið 1923, skulum við hafa það hugfast að áunnin réttindi hafa síður en svo fallið af himnum ofan. Síður en svo. 

Baráttunni fyrir betri kjörum, auknu réttlæti og bræðralagi lýkur aldrei og við megum aldrei sofna á verðinum. Við verðum að standa saman og halda vörð um það sem hefur áunnist um leið og við sækjum fram. Samstaðan er okkar sterkasta og beittasta vopn. 

Minnkum atvinnuleysið
Rúmlega tuttuguþúsund manns eru nú á atvinnuleysisskrá, stóra verkefnið  er klárlega að vinna bug á atvinnuleysinu. Þau sem misstu vinnuna, finna eðlilega mest fyrir kreppunni og hlutverk samfélagsins er þess vegna að minnka atvinnuleysið með öllum tiltækum ráðum, enda langtíma-atvinnuleysi eitt mesta böl sem einstaklingar geta orðið fyrir. 

Verkalýðshreyfingin hefur margsinnis bent stjórnvöldum og atvinnulífinu á fjölmargar leiðir í þessum efnum og kallað eftir víðtæku samráði. 

Án vinnu verður lífsbaráttan erfið, það segir sig sjálft og auk þess bendir ýmislegt til þess að ójöfnuður fari vaxandi og að sjálfsögðu mun verkalýðshreyfingin áfram berjast gegn þeirri þróun. 

Njótum öll auðlindanna
Nú þegar við sjáum fram á að þorri þjóðarinnar fái bólusetningu gegn Covid-veirunni, tekur við uppbygging eftir mikinn samdrátt. 

Látum það ekki gerast að ójöfnuður aukist, byggjum þess í stað upp þjóðfélag þar sem afkoma samfélagsins verður áfram með því besta sem þekkist í veröldinni. Við slíkar aðstæður gefur það augaleið að lífskjör launþega eiga að vera góð og mannsæmandi. 

Tiltölulega fámennur hópur á ekki að njóta gæða auðlindanna og skammta sér laun og fríðindi eftir eigin geðþótta á kostnað annarra. 

Við skulum meðal annars hafa þetta sérstaklega í huga á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. 

Sjúkrasjóðir gott dæmi um samstöðuna
Á óvissutímum sem þessum er nauðsynlegt að minna á mikilvægt hlutverk ýmissa sjóða stéttarfélaganna. 

Sjúkrasjóður Einingar-Iðju hefur það hlutverk að mæta að miklu leyti tekjutapi félagsmanna vegna tímabundinna veikinda með greiðslu sjúkradagpeninga. Sjóðurinn endurgreiðir hluta af kostnaði félagsmanna meðal annars vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, sjúkranudds, viðtala við sálfræðinga, krabbameinsleitar, gleraugnaglerja og heyrnartækja. Á síðasta ári greiddi sjóðurinn um 169,5 milljónir króna vegna þessa og er því öflugur bakhjarl. 

Sömu sögu er að segja um önnur félög, slíkir sjóðir  gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki og sýna hverju samstaða fólks getur áorkað. 

„Einn fyrir alla og allir fyrir einn“
Innan ASÍ eru skiptar skoðanir um hvort  sambandið eigi áfram að leggja áherslu á samtryggingu í lífeyrissjóðakerfinu, sumir telja að draga eigi úr samtryggingunni og gefa fólki möguleika á að fara frekar í séreign.

Forseti ASÍ talar fyrir samtryggingunni og styð ég þann málflutning heilshugar.

Launafólk sem verður fyrir áföllum á að geta treyst á að það verði ekki skilið eftir, heldur standi allir sjóðafélagar saman. Hugsunin verði áfram „einn fyrir alla og allir fyrir einn.“

Sjálfsögð krafa og eðlileg
1. maí, alþjóðlegur dagur verkalýðsins, er í annað sinn haldinn hátíðlegur í skugga heimsfaraldursins. Hvorki er mögulegt að efna til kröfugöngu, né safnast saman til að sýna samstöðu. 

Við Íslendingar höfum almennt staðið saman í varnarbaráttunni gegn veirunni og sýnt þannig að samstaða skilar árangri, meðal annars með því að verja viðkvæmustu hópana. 

Verkalýðshreyfingin mun áfram berjast fyrir réttlátu samfélagi og standa vörð um hagsmuni launafólks. Krafan er að lífskjör allra verði mannsæmandi. Í einu auðugasta landi heimsins er slík krafa sjálfsögð og eðlileg. 

Samstaða er lykillinn að réttlátu þjóðfélagi! 

Góðar kveðjur
Til hamingju með alþjóðlegan dag verkalýðsins og gleðilegt sumar allir landsmenn!

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.

Texti með forsíðumynd:
Stéttarfélögin við Eyjafjörð hafa í gegnum tíðina staðið fyrir hátíðarhöldum í tengslum við 1. maí. Vegna aðstæðna verður dagurinn haldinn rafrænt í ár og hvetjum við félagsmenn okkar til þess að fagna deginum og þeirra réttinda sem við njótum. Hér má sjá Björn í kröfugöngu á Akureyri árið 2019.

Skoða á ein.is