Borið hefur á því að unglingar á Siglufirði hafa leikið ljótan leik við íbúa að Túngötu 11 á Siglufirði.

Um helgina keyrði um þverbak þegar límdar voru hurðarsprengjur á útidyrnar og hefur Inga Margrét Benediktsdóttir tilkynnt verknaðinn til lögreglu.

Trölli.is hafði samband við Ingu Margréti og innti hana eftir frekari upplýsingum vegna málsins.

Þetta hafði Inga Margrét að segja um þennan ljóta leik.

Þetta byrjaði allt fyrir u.þ.b. tveimur árum þegar eitt af þessum tiktok æðum var í gangi og þá var rosalega sniðugt að gera dyraat hjá fólki og ná því á video þegar fólk kom til dyra. Fyrst var þetta alveg skemmtilegt að krakkar væru að leika sér og gera prakkarastrik en þegar fór að líða á árið þá fékk fyrrverandi kærasti minn nóg og beið við hurðina í eitt skiptið, þar sem þetta var nánast stanslaust, og greip einn krakkann við dyraat og var heldur ákveðinn og bað um að hann myndi hætta þessu og slasaði sig í leiðinni á hendi við að reka sig í nagla við að opna hurðina og þurfti að sauma þrjú spor. Þetta stoppaði í nokkra daga en hélt svo áfram af fullum krafti og eftir að sambandi mínu lauk við þennan mann þá varð þetta enn þá verra. Það var stanslaust verið að gera dyraat öll kvöld og alveg langt fram eftir kvöldi, lengur en verslanir eru opnar í þessum bæ, og var þetta farið að halda okkur og börnunum vöku fram eftir kvöldi.

Þegar Neon byrjar svo aftur í haust þá varð enn þá meiri kraftur í þessu hjá krökkunum og oft sem ég horfði á þá út í glugga bara að gera dyraat og ef einhver hefði verið að koma í heimsókn hefði verið heldur ólíklegt að ég svaraði. Það var síðan þegar ég byrjaði að fá hótanir gagnvart mér og börnunum frá aðila að ég setti upp dyrasíma með myndavél, þar sem mér leið mjög illa gagnvart því að það var verið að banka og það oft mjög fast og harkalega á hurðina á þeim tímum sem hótanir voru að berast. Ég fékk mér einnig öryggismyndavél í glugga sem vísar út á götu. 

Þetta áreiti minnkaði að vísu í jólafríinu og allt að því að nýir rekstraraðilar tóku við Videoval en voru þó eitt eða tvö atvik sem ég náði á upptöku og hafði samband við foreldra og bað um að fá frið. Síðan hélt þetta áfram af miklum krafti þegar nýir rekstraraðilar tóku við sjoppunni og veit ég að þetta var ekki bara hjá mér, heldur einnig nágrönnum mínum, og erum við flest öll orðin mjög þreytt á þessu stanslaust. Ég birti þá video sem ég náði af myndavélinni á samfélagsmiðlinum Facebook og biðlaði til foreldra að biðja börnin sín að hætta þessu. Enda var ég stundum bara ein taugahrúga þegar það var byrjað að hamra á hurðina eftir að hafa fengið hótanir sama dag eða dagana áður. Ólöf Gréta myndaði þá samstarf með mér og auðvitað öðrum í sömu stöðu og sagði krökkunum sem hún var búin að standa að verki að þeir yrðu bannaðir í sjoppunni ef þetta héldi áfram. Eftir það varð alveg þögn, ég tók niður myndavélina við hurðina út af næturfrosti og setti ekki aftur upp og var litið að fylgjast með hinni vélinni. 

En svo allt í einu í morgun fæ ég myndskilaboð frá Ólöfu þar sem ég er beðin um að opna ekki hurðina. Þar var búið að líma mikið magn af hurðasprengjum í búnt og festa utan á hurðina í mismunandi hæð og ef ég hefði opnað hurðina eða barn er alveg víst að þetta hefði sprungið beint í andlitið á mér, hundinum mínum eða eitt af börnunum. Ólöf fjarlægði sprengjurnar sem betur fer áður en leikurinn varð þetta ljótur, enda er þetta ekkert leikur lengur þegar þetta er svona langvarandi og er þetta farið að verða mjög leiðinlegt áreiti. Þegar ég fer svo út með ruslið síðar í dag þá sé ég að búið er að sprengja innisprengjur inn í forstofuna að öllum líkindum gegnum bréfalúguna. 

Ég geri mér fulla grein fyrir því að prakkarastrik eru leikur. En þegar það er orðið þannig að einblínt er á að hrella einn aðila, eina fjölskyldu, ítrekað, þá er það ekki lengur leikur því þá er það orðið áreiti. Þegar það er orðið þannig að það geti hlotist skaði af, er það orðið alvarlegt áreiti.

Ég tek það fram að ég er búin að senda tölvupóst með öllum upplýsingum um þennan verknað til lögreglunnar á Norðurlandi eystra. 

Mynd/aðsend