Albert Einarsson

Ég heiti Albert Einarsson og fæddist heima á Hvanneyrarbraut 62, í kjallaraíbúðinni, og ólst upp úti í bakka og ekki vantaði leiksvæði – fjallið, fjaran og bakkarnir. Það var alltaf eitthvað við að vera.

Pabbi, Einar M. Albertsson, var skósmiður, verkamaður og síðar meir póstmaður um langt skeið. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir, alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann m.a. í frystihúsi SR, en ég man mest eftir því að hún skúraði í barnaskólanum og svo vann hún lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins. (Meira um þau Einar og Dúddu hér (Einar) og (Dúdda).

Ég var kennari og skólameistari á Íslandi og flutti svo til Noregs og starfaði þar við menntamál, einkum menntun fullorðinna.


Að borða stolið álegg 

Íshúsið úti á bökkum var alltaf drungalegt og dularfullt. Þetta var gríðarlega stór hvít bygging, með mörgum rangölum.

Krakkar löðuðust að íshúsinu og því var ekki betur lokað en svo að við fundum smugur og op til að komast inn. Það hafði ekki verið starfsemi í íshúsinu um langan tíma. Eina starfsemin var að bílar komu af og til með vörur í kössum, sem settir voru inn í geymslu og svo seinna var náð í kassana.

Við krakkarnir skiptum okkur svo sem ekkert af þessum kassaflutningum að öðru leyti en því að í kössunum voru að okkar mati gersemar. Þarna voru nefnilega túpur með súkkulaðikremi. Ég komst að því seinna að þetta var súkkulaðiálegg. Þarna var líka, að mig minnir kavíar og eitthvað annað í túpum, en það heillaði ekki bragðlaukana okkar eins og súkkulaðið.

Í minningunni sitjum við krakkarnir þarna inni í íshúsinu, í myrkrinu, og kreistum súkkulaðiálegg upp í munninn. Þvílík dásemd. 

Það er allt önnur saga af því hvað þessar túpur voru að gera þarna.

Myndir/aðsendar