Að gefnu tilefni vill HMS benda á að óvarleg og óhófleg notkun fjöltengja getur haft alvarlegar afleiðingar. Mörg dæmi eru um alvarlega bruna af þessum völdum og því vill HMS benda á eftirfarandi:

  • Tengið ekki mörg tæki í sömu innstunguna með fjöltengjum
  • Tengið aldrei tvö eða fleiri fjöltengi saman
  • Tengið ekki mörg raftæki í sama fjöltengið
  • Tengið ekki orkufrek rafmagnstæki í fjöltengi
  • Reynið ekki að flytja rafmagn langar leiðir með framlengingarsnúrum
  • Fáið löggiltan rafverktaka til að fjölga föstum tenglum frekar en að nota fjöltengi óhóflega

Nú fer jólahátíðin í hönd með aukinni notkun á allskyns rafbúnaði, til dæmis ljósakeðjum, það er því enn frekari ástæða til að fara varlega í notkun fjöltengja og framlengingarsnúra og taka ekki áhættu sem valdið getur fjölskyldunni tjóni.

Tíu ráð um rafmagnið:

  1. Sýnið varúð við eldamennsku og munið að slökkva á eldavélinni strax eftir notkun.
  2. Takið raftæki úr sambandi þegar þau eru ekki í notkun.
  3. Látið skipta strax um skemmdan rafbúnað.
  4. Hlaðið raftæki á óbrennanlegu undirlagi og ekki þegar allir eru sofandi eða fjarverandi.
  5. Fargið gömlum rafbúnaði sem farinn er að láta á sjá.
  6. Reynið ekki að gera það sem aðeins fagmenn ættu að gera.
  7. Prófið bilunarstrausmrofann (lekastraumsrofann) nokkrum sinnum á ári með því að þrýsta á prófhnappinn.
  8. Farið varlega í notkun fjöltengja.
  9. Varist að staðsetja ljós eða annan rafbúnað sem hitnar of nálægt brennanlegu efni.
  10. Gefið gaum að merkingum raftækja og notið eins og til er ætlast.

Mynd/HMS