Skemmtiferðaskipið Ocean Diamond gerir út á hringsiglingar um Ísland og Grænlandsferðir.

Skipið er væntanlegt til Siglufjarðar níu sinnum í sumar, á tímabilinu maí – september. Þetta er eina skemmtiferðaskipið sem gert er út af íslensku fyrirtæki og er nú á þriðja rekstrarári sínu.

 

Dansað og sungið á planinu við Róaldsbrakka

 

Frá upphafi hafa farþegar skipsins haft kost á að heimsækja Síldarminjasafnið þegar komið er til Siglufjarðar. Þar er boðið upp á síldarsöltun og bryggjuball á planinu við Róaldsbrakka, leiðsögn um safnhúsin og síldarsmakk.

Það sama á við um aðrar skipaheimsóknir líka. Í allflestum tilfellum koma farþegarnir (allir eða hluti þeirra) á Síldarminjasafnið.

 

 

Síldarstúlkurnar knáu höfðu nóg að gera í fyrra, söltuðu 34 sinnum við Róaldsbrakkann fyrir ferðamenn, þar sem einnig var sungið og dansað líkt og tíðkaðist á síldarárunum, og gestum boðið að dansa með. Þarna er verið að varðveita söguna og verkþekkingu til síldarsöltunar. Nú þegar er búið að bóka 70 söltunarsýningar í sumar svo það er hreint ekkert lát á þessum sýningum.

 

Myndir: Gunnar Smári Helgason
Texti: Gunnar Smári og Anita Elefsen