Nú er fyrri hluta framkvæmda við Aðalgötu á Siglufirði að ljúka og hefur gatan tekið miklum stakkaskiptum.

Aðspurður sagði Sölvi Sölvason verktaki sem sá um verkið að framkvæmdir hefðu ekki getað hafist í byrjun maí eins og áætlað var vegna þess að þá gerði snjókomu í fáeina daga. En síðan það hófst hafi allt gengið að óskum og því væri lokið einhverjum dögum á undan áætlun.

Sölvi lauk miklu lofsorði á mennina sem eru frá Litháen og sáu um hellulögnina sem er gríðarlega mikið verk. Þeir hafi greinilega lagt sálina í það sem þeir voru að gera og hafi tæpast litið upp úr verkinu meðan á vinnu stóð og það sé auk þess gríðarlega vel unnið.

Framkvæmdin felur í sér lagningu nýrra lagna í götu, nýja hellulögn á gangstéttar og bílastæði, uppsetningu nýrra ljósastaura og nýtt malbik á götu. Öll hönnun og frágangur svæðisins miðast við að gera vistgötunni góð skil þar sem umferð gangandi og hægfara farartækja eins og reiðhjóla, hjólaskauta eða hjólabretta hefur forgang fram yfir umferð bíla.

Framkvæmdir við Aðalgötu að hefjast

Leó Ólason og Álfhildur Þormóðsdóttir íbúar við Aðalgötu á Siglufirð tóku þessar skemmtilegu myndir af framkvæmdunum. Trölli.is færir þeim þakkir fyrir velviljann.