Mannlegur harmleikur hefur átt sér stað í litlu byggðarlagi norður í landi. Harmleikur sem snertir heilt bæjarfélag og íbúa þess. Sumir einstaklingar eru í kjölfarið bognir, aðrir brotnir. Þegar að sorgaratburður sem þessi á sér stað, eru það ekki einungis fórnarlömb og gerendur sem eiga um sárt að binda, heldur einnig fjölskyldur, vinir og aðstandendur þeirra sem eiga í hlut.

Fjölmiðlar vilja gera sitt besta til að upplýsa fólk og segja sem ítarlegast frá atburðum og er það vel. Við eigum gott fjölmiðlafólk sem hefur metnað til að segja sem fyrst frá nýjustu vendingum, fjalla um ýmsar hliðar mála og upplýsa okkur hin. En ég vil biðla til ykkar fjölmiðlafólks að virða ákveðin mörk gagnvart aðstandendum málsins. Fólk er að takast á við áföll og sorg og það þarf bæði næði og svigrúm.

Lögreglan vinnur faglega að rannsókn málsins og mun upplýsa staðreyndir þess eftir því sem þær liggja fyrir.

Við skulum öll hafa í huga, að aðgát skal ávallt höfð í nærveru sálar. Á það sérstaklega við á erfiðum stundum sem þessum.

Sigríður Ingvarsdóttir

Bæjarstjóri Fjallabyggðar