Á 724. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar sem haldinn var 16. desember 2021 var lagt fram minnisblað bæjarstjóra sem varðaði hugmyndir um nýtingu fasteigna á flugvallarsvæðinu á Siglufirði með það að leiðarljósi að þar geti orðið til öflug atvinnustarfsemi til framtíðar.
Tillaga um þróun og nýtingu flugvallarsvæðis á Siglufirði 11.12.2021

Í framhaldinu var auglýst eftir hugmyndum og bárust þrjár tillögur.

Lagt var fram minnisblaðs starfshóps um úrvinnslu innsendra hugmynda á 732. fundi bæjarráðs um framtíðarnýtingu flugvallarsvæðisins á Siglufirði.

Í minnisblaðinu er farið yfir innsendar hugmyndir, veitt um þær umsögn og gerð tillaga að næstu skrefum. Þær tillögur sem bárust vöru eftirfarandi.

Innsendar hugmyndir.

Sveitarfélaginu bárust tvær hugmyndir innan skilafrest en ein tillaga kom að loknum fresti, tvær af þessum tillögum, þ.m.t. sú sem barst of seint, snúa að uppbyggingu tengdri verslun og þjónustu en ein tillaga sneri að því að nýta svæðið undir íbúðabyggð fremur en atvinnusvæði.

1. Hugsum til framtíðar, Haraldur Marteinsson og Kristín Halldórsdóttir.
Í hugmyndinni er sett fram áhugaverð framtíðarsýn hvar lagt er til að flugvallasvæðið og svæði austur af vellinum verði þróað sem íbúðabyggð með vegtenginu yfir á Leirutanga. Einnig eru settar fram hugmyndir um íbúðir á „gamla malarvellinum“, útvíkkun núverandi atvinnusvæðis á Leirutanga og þörf á atvinnuátaki í bæjarfélaginu. Ljóst er að hugmyndin, hvað varðar uppbyggingu íbúðabyggðar á og við flugvöllinn, fellur ekki að gildandi aðalskipulagi, stefnu sveitarfélagsins er varðar að flugvöllurinn sé og verði til notkunar a.m.k. sem lendingarstaður, né að vilja þeim er settur var fram í auglýsingu þar sem óskað er hugmynda „um nýtingu flugvallarsvæðisins á Siglufirði með það að leiðarljósi að þar geti orðið öflug atvinnustarfsemi til framtíðar“. Vert er þó að geta þess að umrædd hugmynd kemur út af fyrir sig ekki í veg fyrir nýtingu fasteigna við flugvöll til snyrtilegrar atvinnustarfsemi en hún lokar á hugmyndir sem snúast um samþætta nýtingu fasteigna og flugvallar/lendingarstaðar.

Umsögn:
Tillagan er ekki í samræmi við þær forsendur sem lagt var upp með um þróun atvinnuuppbyggingar og nýtingu mannvirkja á svæðinu. Með hliðsjón af því er lagt til að ekki verði frekar unnið með tillöguna að sinni.

2. Náttúruböð, sjóböð og tengd starfsemi, Björt Ólafsdóttir f.h. fasteignaþróunarfélagsins Iðu ehf.
Hugmynd sú sem hér verður lýst barst eftir að frestur til að senda inn hugmyndir rann út, þ.e. 31. janúar en frestur til að skila inn hugmyndum var til 24. janúar. Hugmyndin gerir ráð fyrir þróun og umbreytingu svæðisins í náttúruböð með tengingu við grunnsævið í enda fjarðarins, sjósund og heilsueflingu. Lagðir eru m.a. til heitir pottar, seltuböð, lág útilaug í grunnsævinu og samspili við lögun og náttúru svæðisins og aðlaðandi aðstöðu fyrir sjósundiðkun. Einnig að gert verði ráð fyrir tengdri þjónustu eins og veitingasölu. Ekki er að finna skýrar hugmyndir um nýtingu tengda flugvellinum sjálfum eða flugtengdri starfsemi. Iða ehf. tilgreinir samstarfsaðila og að fyrir hendi séu tengingar við áhugasama fjárfesta í ferðaþjónustu.

Umsögn:
Tillagan felur í meginatriðum í sér þróun bað- og heilsutengdrar starfsemi þar sem reynt yrði að skapa einstaka og aðlaðandi upplifun gesta, bæði ferðamanna og heimafólks árið um kring. Tillagan ber með sér að vera á frumstigi og sett fram sem slík og þarfnast ítarlegri útfærslu eigi að fjalla um hana nánar. Ekki er að finna skýrar tillögur að því hvernig móta eigi flugtengda starfsemi á svæðinu. Lagt er til að ekki verði frekar unnið með tillöguna að sinni.

3. Airport Fjallabyggð, Steve Lewis f.h. The Empire Expeditions ehf. ofl.
Innsend tillaga er viðamikil og ítarleg. Tillagan gerir ráð fyrir blandaðri starfsemi tengdri ferðaþjónustu þar sem verði að finna útibaðsvæði við sjóinn, veitingasölu sem höfði til ólíkra markhópa, endurbyggingu flugvallaraðstöðu fyrir létta flugumferð og uppbyggingu gistirekstur af hóflegum skala. Tillagan er ítarlega rökstudd og henni fylgja uppdrættir og kynningar sem gera grein fyrir sýn tillöguhöfunda að þróun starfsemi á svæðinu. Gert er ráð fyrir að nokkrir grunnþættir skapi starfsemi á svæðinu sem stutt geti hvern annan, en hver um sig verið allnokkur að umfangi. Í tillögunni er að finna útfærslur á nýtingu húsakosts sem fyrir hendi er auk frekari bygginga og uppbyggingar á svæðinu og raunhæf áform um að nýta flugvöllinn áfram fyrir létta flugumferð. Grein er gerð fyrir því hvernig tillöguhöfundar telja að fjármagna megi verkefnið. Lögð er niður áfangaskipt tímalína um hvernig og í hvaða þrepum uppbygging geti átt sér stað.

Umsögn:
Tillagan mætir vel þeim hugmyndum sem lagt var upp með í upphafi og kynntar voru, að byggja skuli upp atvinnustarfsemi á svæðinu og ná fram markmiðum um nýtingu fasteigna sveitarfélagsins á svæðinu. Ennfremur er að finna upplýsingar um fjármögnun, verk og tímaáætlanir. Nái áformin fram að ganga er um að ræða sannfærandi tillögu um þróun varanlegrar starfsemi á flugvallarsvæðinu. Af þeim tillögum sem bárust er það mat starfshópsins að tillagan mæti best þeim forsendum og óskum sem sveitarfélagið óskað eftir að lagðar yrðu til grundvallar í hugmyndavinnu um framtíðarþróun flugvallarsvæðisins á Siglufirði.

Niðurstaða starfshóps.
Byggt á ofangreindu þá leggur starfshópurinn til við bæjarráð að bæjarstjóra verði falið að hefja formlegar viðræður við þá aðila sem standa að baki hugmynd 3, þ.e. Airport Fjallabyggð, um framtíðaruppbyggingu á flugvallarsvæðinu á Siglufirði.