Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að móta aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi hefur skilað ráðherra skýrslu sinni þess efnis. Áætlunin tekur til áranna 2025–2030 og felur í sér 26 aðgerðir um markvissar og gagnreyndar sjálfsvígsforvarnir á öllum stigum, bæði almennar og sértækar.

Eins og skýrsluhöfundar benda á eru sjálfsvíg alvarlegur lýðheilsuvandi með víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Á Íslandi hefur árlegur meðalfjöldi sjálfsvíga verið 41 síðustu fimm ár (2019–2023). Rannsóknir hafa sýnt að hvert sjálfsvíg er samfélaginu dýrkeypt auk þess sem hvert sjálfsvíg hefur áhrif á heilsufar og líðan fjölmargra í nærumhverfi þess látna. Áhrifaríkar sjálfsvígsforvarnir stuðla að því að þau sem þurfa aðstoð fái viðeigandi stuðning á öllum stigum. Þannig má fyrirbyggja aukinn vanda og koma í veg fyrir dýrari úrræði vegna minnkandi getu til að sinna athöfnum daglegs lífs, stunda vinnu og nám. 

Aðgerðaáætlunin dýrmætt verkfæri

„Ég tek heilshugar undir með skýrsluhöfundum að fjármagni sem varið er til markvissra og gagnreyndra sjálfsvígsforvarna er vel varið. Þessi aðgerðaáætlun er því dýrmætt verkfæri til að stuðla að bættri lýðheilsu og bjarga mannslífum“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

Aðgerðaáætlunin styður við aðrar núgildandi stefnur og áætlanir á sviði geðheilbrigðis og lýðheilsu. Við gerð hennar var stuðst við gagnreynda þekkingu á sjálfsvígum og reynslu af sjálfsvígsforvörnum, bæði innanlands og erlendis. Horft var til leiðbeininga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, klínískra leiðbeininga og árangursríkra áhersluatriða í sjálfsvígsforvörnum á alþjóðavísu.  

Aðgerðirnar kalla á víðtæka, samhæfða samvinnu og samsköpun (e. co-creation) milli ráðuneyta og þjónustukerfa. Þær fela meðal annars í sér menntun og samræmingu verklags í vinnulagi fjölmiðla, ásamt þjónustu lykilaðila og heilbrigðisstarfsfólks. Markmiðið er að auka þekkingu og færni til að bregðast við með stuðningi og viðeigandi hætti á öllum stigum þjónustu. Einnig eru í áætluninni lagðar til aðgerðir sem snúa að því að greina tölfræði í tengslum við sjálfsvíg á Íslandi, aðgerðir sem fela í sér vinnu við val og gerð fræðsluefnis fyrir börn og ungmenni og aðgerðir tengdar vitundarvakningu um geðheilbrigði og sjálfsvígsforvarnir.  

Mynd/pixabay