Föstudaginn 27. apríl fóru ellefu nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga ásamt tveimur kennurum í ferð til Ítalíu. Hópurinn millilenti í Luton og lent í Róm um kvöldið.
Upphafið af þessu ævintýri var fyrir um tveimur og hálfu ári síðan þegar gestur kom inn á Kaffi Klöru til að fá sér kaffi. Gesturinn var spænsk kona að nafni Goretti Eugenio García sem var á ferðalagi umhverfis Ísland og tóku þær Ida Semey eigandi Kaffi Klöru tal saman.
Kom þá í ljós að þær voru báðar spænskukennarar, Ida í Ólafsfirði og Goretti á Spáni. Áður en þær kvöddust, eftir langt spjall, ákváðu þær að fara saman í Erasmus sem er samevrópskt verkefni á vegum ESB. Þær sóttu um styrk á vegum verkefnisins og fengu.
Í framhaldinu settu þrír skólar sig í samband og 19 – 25 september voru hér staddir nemendahópar frá framhaldsskólum á Ítalíu og Spáni sem taka þátt í samstarfsverkefni í MTR og nú eru ellefu nemendur frá MTR staddir á Ítalíu.
Erasmus K2 verkefnið er kallað „Towards empowerment and sustainability of young people“ og fjallar um hvernig er hægt að stuðla að aukinni valdeflingu ungs fólks til eigin atvinnusköpunar.
Nemendurnir söfnuðu fyrir aukadvölinni í Róm með því að þvo bíla og koma til með að kynna fyrir öðrum nemendum verkefni sem þau nefna valdefling ungs fólks til eigin atvinnusköpunar. Hugmyndin að þeirri atvinnusköpun er bílaþvotta fyrirtæki sem hægt væri að reka hér á Tröllaskaga.
Laugardagurinn var skemmtilegur þar sem krakkarnir kynntust sögu Rómarborgar með leiðsögn í tveggja hæða rútu, þau skoðuðu byggingarlist og Roma et bellisima. Einnig fannst þeim mannlíf borgarinnar áhugavert allt frá iðandi mannlífinu, heimilislausu fólki, sölufólki, betlurum og fl.
Þau fengu einnig frjálsan tíma sem var notaður í allt mögulegt og allmargir fór í búðarráp. Í gærkvöldi endaði hópurinn á að fara út að borða.
Nú gista þau á hóteli en síðan gista þau hjá nemendum sem komu í heimsókn í september, það hafa myndast góð samskipti á milli þeirra í gegnum samfélagsmiðla og verða víða fagnaðarfundir.
Trölli.is mun fylgjast áfram með ferðinni og birta fréttir af þessu skemmtilega ferðalagi.
Myndir: Ida Semey