Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur nú fengið formlega viðurkenningu sem UNESCO skóli. Þetta er alþjóðlegt verkefni og með þessu er skólinn kominn í samstarfsnet tíu þúsund skóla í 181 landi.

Ida Semey kennari í MTR hefur borið hitann og þungann af umsóknarferlinu. Sem dæmi má nefna að allir kennarar skólans hafa fléttað heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í kennslu og verkefnavinnu í fjölmörgum áföngum. Það er einmitt eitt af markmiðum UNESCO verkefnisins, að auka þekkingu nemenda á málefnum Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðunum. Sömuleiðis er takmarkið að koma á samstarfi við erlenda UNESCO skóla og þar hefur MTR ágæta reynslu sem nýtist vel í áframhaldandi verkefni.

Á meðfylgjandi mynd sést hópur nemenda og kennara fyrir framan Colosseum í Róm með skjalið frá UNESCO. Þessi hópur er nú á Ítalíu að vinna að verkefninu Let’s Eat Culture ásamt nemendum frá Ítalíu og Lanzarote á Kanaríeyjum. Verkefnið snýst um matarmenningu á mismunandi svæðum en einnig um sjálfbærni og umhverfisvitund svo það tengist heimsmarkmiðum UNESCO. 

Ida Semey er 3ja frá vinstri á myndinni.

Mynd af vefsíðu MTR