Þetta merkilega ÓKEI orð, er notað í flest öllum tungumálum heimsins, er af mörgum talið ÓÞJÓÐLEGT á Íslandi, en er samtímis minnst sagt ALÞJÓÐLEGT. Þetta er heimsfrægt orð og þar af leiðandi á það skilið að ævisaga þess sé sögð í víðtækri og skemmtilega uppsettri og fræðandi bók.
Bókarheiti:
ÓKEI – Leitin að upphafi og sögu þekktasta orðatiltækis í heimi
Höfundur: Sigurður Ægisson
Bókaútgáfan Hólar 2024
Áður en mér barst bókin til lestrar kom þessi spurning upp í huga mínum: Hvað, er virkilega hægt að skrifa heila bók um eitt og sama orðið? Eftir lestur er svarið stórt: JÁ!
Því þetta er svo miklu meira en bara, ókei bók!
Höfundur bókarinnar fer í „leit sinni að uppruna orðsins“ í rauninni með okkur lesendur í heilmikið ferðalag. Ofan á að vera einhverskonar fræðileg ævisaga orðsins, er þessi bók líka ferðasagan:
„Umhverfis jörðina á 300 blaðsíðum með orðinu ÓKEI!.“
Því í 50 ólíkum köflum, sem fara með okkur víðs vegar um heiminn, kemur skírt fram að margir gera tilkall til þess að vita uppruna orðsins Ókei og samtímis eigna sér og sínum, einhverskonar höfundarrétt á þessu fræga stutta orði.
Sigurður Ægisson er einstaklega duglegur við að draga athygli lesenda inn í allskyns einkennileg og spennandi hliðarspor og furðulegheit í t.d. mannkyns- og tungumálasögu heimsins og samtímis tengja það við sögu orðsins. Meira að segja ljósmyndirnar, sem eru fjölmargar, eru eigin smá hliðarsögur með fræðandi myndatextum.
Aftur og aftur sér maður sem lesandi hvað þetta skammstafaða orð er STÓRT og að við notum það ómeðvitað í að segja allskyns hluti við hvert annað. Því meira að segja, þegar við nennum ekki að skrifa OK eða Ókei, í smá skilaboðum, notum við oft táknið: 👍 eða 👌 til að segja: Ókei, allt í lagi, ég skil, sammála o.fl.
Undirritaður verður að viðurkenna að bókin kom mér skemmtilega á óvart, hélt mér við lestur, en fékk mig líka til að gleyma mér í mínum eigin hliðarsporahugsunum um ÓKEI orðið og hverning ég nota það í daglegu tali og skrifum og svona rétt til að gefa ykkur smá smjörþef af þeim gríðarlega mikla og áhugaverða fróðleik sem birtist í bókinni.
Get ég t.d. nefnt, að ég festist í stuttorðum og skemmtilegum pælingum Sigurðar um hin alheims- flökku-sögufræga “Oliver KILROY,” sem með réttu skammstafar nafnið sitt OK. Flökkusagan segir að hann hafi verið mjög svo ábyrgur birgðarvöður í Ameríkanska hernum, að eftir móttóku á vörum, merkti hann allar kassa með upphafstöfum sínum, OK = staðfesting á að hann hafi svo sannarlega, móttekið, athugað og samþykkt innihaldið.
Sigurður bætir síðan við: “Gjörningur hans á að vera uppruni annars orðatiltækis líka, og ekki síður þekkts, „Killory var hér“. Þetta er kallað að slá tvær flugur í einu höggi. Geri aðrir betur! (Lars Dierich 2003 (netheimild).)
Ég segi bara: Guði sé lof, að það sé til fólk eins og Siglfirðingurinn Séra Sigurður Ægisson, sem rétt eins og í sögunni um Gústa Guðsmann, gefur sig allan inn í að grúska í og afla óteljandi heimilda og þar á eftir ná saman góðu ritverki, sem vekur forvitni okkar og styttir okkur stundir í skammdeginu.
Sjá einnig aðra nýlega birta grein með hugleiðingum um bókina Síldardiplómasía:
Hugleiðingar um bókina: Síldardiplómasía
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðuljósmynd af bókarkápu og aðrar myndir úr bókinni eru birtar með leyfi frá höfundi bókarinnar og úgefenda.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON