Bókarheiti: GÚSTI, alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn.
Höfundur: Sigurður Ægisson
Bókaútgáfan Hólar 2019

Þegar við lesum bækur þá gerist það stundum (sjaldan reyndar) að við lesendur verðum næstum miður okkar þegar við áttum okkur á því að við erum á síðustu síðunum………sagan sem greip okkur svona svakalega er búinn…..hva…  kemur þá ekkert meira ?

En svo segjum við kannski upphátt: „Þetta var mjög góð saga“
En við gleymum oft að gefa okkur tíma í að svara okkur sjálfum:

„Af hverju var einmitt þessi bók svona góð ?“

Bókarkápa. Ljósmynd á forsíðu tók Árni Jörgensen, en hún var einnig notuð sem fyrirmynd af styttu af Gústa sem nú stendur á Torginu.

 

Eins og titill bókarinnar segir þá er þetta sem sagt saga um „sjómann“ sem heitir Ágúst og allan þann tíma sem hann bjó á Siglufirði var hann alltaf kallaður Gústi og hafði viðurnefnið…já eða „starfstitillinn“  GUÐSMAÐUR,  þetta er orð sem virðist alltaf þurfa að fylgja með þegar við tölum um hann svona rétt til aðskilnaðar frá öðrum “venjulegum dauðlegum Gústum“.

Maður getur spurt sjálfan sig margra spurninga.  Er þetta viðurnefni sagt í gríni eða á einhverskonar niðurlægjandi máta eða var hann sjálfútnefndur óaflaunaður umboðsmaður / starfsmaður Guðs á Siglufirði ?

Að auki getum við spurt ? Hvernig gerðist það að maður sem lifði svo einföldu og látlausu lífi í litlu bæjarfélagi verður svo frægur að það er samið um hann dægurlag og reist af honum stór stytta í miðbæ Siglufjarðar og nú kemur heil bók um trúboðann, alþýðumanninn og  sjómanninn GÚSTA ?

Höfundur bókarinnar er prestur og fæddur og uppalinn á Siglufirði en hann heitir Sigurður Ægisson og honum tekst það sem fáum er unnað, nefnilega að svara öllum þessum spurningum sem við höfum um þennan merkilega mann án þess að gera aðalpersónuna af einhverju skrítnu furðulegu fyrirbæri sem lifði svo ótrúlega öðruvísi lífi en við hin.

En við sköpum öll okkar líf sjálf eða hvað ?

Eða eru það tilviljanir, mótlæti og annað sem forma persónuleika okkar og það líf sem við veljum að lifa ?

Sigurður svarar öllum þeim spurningum líka á einstaklega mannelskulegan hátt en skilur samt eftir pláss sem við verðum sjálf að fylla í !

Ég skil Gústa Guðsmann betur núna og ég virði hann og elska meira eftir að hafa lesið þessa stórkostlegu sögu……

……Takk Sigurður fyrir að leggja tvo áratugi í rannsóknir og gagnasöfnun.

Gústi Guðsmaður og Séra Sigurður Ægisson höfundur bókarinnar. Ljósmyndari: Árni Jörgensen.  Samsett ljósmynd: Kristín Sigurjónsdóttir.

 

Það sem drífur áfram góðar sögur eru annaðhvort spennandi atburðir eða merkilegar persónur.

Að byggja upp heila sögu og ná athygli lesandans eingöngu gegnum þá forvitni sem Sigurður skapar strax i upphafi um manneskjuna Gústa án starftitilsins „Guðsmaður“ er náttúrulega algjör snilld, maður getur bara ekki hætt að lesa og þetta þrátt fyrir að undirritaður sé einn af mögum lesendum sem telja sig hafa þekkt Gústa persónulega.

Við eigum okkur öll eigin sögur um okkar persónulegu kynni af honum. En margir á Íslandi kunna og syngja vinsælt dægurlag um Gústa og þekkja hann bara þannig.

Lagahöfundurinn og bókahöfundinn eru reyndar bræður og orð þeirra beggja eru falleg og lýsa Gústa Guðsmanni vel.

Eins og fyrr er sagt þá lifði aðalpersónan ótrúlega einföldu lífi í litlum bæ á norðurhjara veraldar.

Það var sem sagt bara þessi Ágúst og GUÐ og þeir tveir bjuggu saman í gömlum köldum illa lyktandi síldarbragga og svo áttu þeir líka lítinn bát saman sem hét Sigurvin og svo er það fiskurinn og hafið og eitthvað sem við vorum búinn að gleyma…….fleiri fleiri fleiri þúsund fátæk börn út um allan heim og sú staðreynd að Gústi velur að setja sjálfan sig í sára fátækt fyrir ávinning annarra. Og við skulum hafa eitt á hreinu og ekki ímynda okkur að þessi einfaldi sjómaður hafi bara nurlað saman einhverjum þúsundköllum. Ó Nei. Við erum að tala um milljónir.

Sem sagt ekkert stórt drama, engir svakalega spennandi atburðir en samt grípur þessi saga mig þvílíkum heildartökum að ég get bara ekki lagt þessa bók frá mér.

Grípur þessi bók mig bara vegna þess að ég er fæddur og uppalinn á Siglufirði og vegna þess að ég hitti aðalpersónuna þar af leiðandi oft og taldi mig / hélt mig þekkja þennan mann ?

NEI, þessi saga mun grípa ALLA sem lesa hana vegna þess einfaldlega að þetta er stórkostlega vel skrifuð saga um mjög, mjög svo merkilegan GUÐSMANN.

Og eftir lestur bókarinnar fær þetta orð nýja meiningu hjá mér, því það verður svo augljóst að hann var svo sannarlega Maður Guðs. Guð átti hann og hann átti Guð.

Og þar fyrir utan verður setning frá bókarkápu næstum staðreynd þ.e.a.s. að Gústi Guðsmaður var í rauninni:

„Engill í dulargervi.“

 

Handskrifaðir miðar með boðskap Gústa Guðsmanns. Ljósmyndari Kristín Sigurjónsdóttir.

 

En Gústi var ekki bara alltaf í þessu Guðsmannahlutverki, hann var líka rétt eins og núverandi umboðsmaður Guðs á Siglufirði í dag sem af hinu góða vil ég meina skrifaði þessa sögu í hjáverkum, oftar en ekki bara venjuleg manneskja…sem sagt ekki alltaf Siggi Prestur. Guði sé lof!

Og svo var það einnig með hann Gústa okkar, því hann gat svo sannarlega bölvað t.d. kommúnistum í sand og ösku og stundum var hann hreinlega bitur og reiður út í lífið en aldrei út í Guð og almættið.

Því GUÐ var sá eini sem brást honum aldrei.

Sú saga kemur líka vel fram í þessari dásamlegu bók og við þekkjum okkur öll í Gústa þrátt fyrir að hann hafi verið svo ótrúlega…. einkennilegur karakter…. það er bara ekki hægt að gera neitt annað en að elskan hann eins og hann er og var.

Næst þegar ég kem á Sigló þá ætla ég að hitta Gústa Guðsmann á Torginu eins og ég gerði svo oft í gamladaga, því hann er svo sannarlega þarna ennþá, ekki bara sem stytta, heldur miklu meira í huga okkar og hjörtum, og hann mun örugglega gefa mér Jesú-mynd með illlesanlegum handskrifuðum texta á bakhliðinni og segja við mig:

„Sjáðu hér Jón. Hér á myndinni er Jesús að metta 1000 manns, þvílíkt kraftaverk, ha sérðu…“

Og ég trúði honum sem barn og geri það í rauninni ennþá því hann sagði þetta með svo mikilli sannfæringu og fítonskrafti að það getur bara ekki verið að hann af öllum sé að ljúga einhverju að mér um þetta stórkostlega kraftaverk.

Takk Gústi segi ég eins og alltaf og svo kallar hann á eftir mér:

„Bið að heilsa ömmu og afa“, já Gústi minn ég skal skila því.

Svo byrjar hann að syngja sálm með sinni einstæðu „þrumuveðursrödd“ og ég heyri í honum alla leiðina heim í suðurbæinn.

Og ég heyri líka í honum „Í DAG“  þrátt fyrir að ég búi í Svíþjóð gegnum orð Sigurðar Ægissonar.

Lifið heil

Nonni Björgvins.

LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TRÖLLI.IS FINNUR ÞÚ HÉR.

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson
Ljósmyndir: Kristín Sigurjónsdóttir og Bókaútgáfan Hólar.