Á heðinsfjörður.is og trolla.is má finna grein frá Þorsteini Þorvaldssyni um loforðaleysi H-lista og
annars framboðs varðandi nýjan gervigrasvöll.
Ég þekki málið alls ekki frá öllum sjónarhornum en hef þó kynnt mér það svona í grófum dráttum án
þess að hafa alla kostnaðarútreikninga varðandi slíkan völl en við í H-listanum höfum rætt þetta mál
eins og mörg önnur. Það má þó reikna með, samkvæmt umfangi framkvæmda sem Dalvíkurbyggð
ætlar að hefja á svipuðum velli, að kostnaður við gervigrasvöll, flóðlýsingu og nýja stúku yrði hvergi
innan við 200 miljónir. Þar sem Sjálfstæðismenn segjast vera búnir að kostnaðarmeta allar
framkvæmdir væri áhugavert að þeir segðu íbúum hvað þessi framkvæmd kostar.
Vert er að hafa í huga að rekstrarafgangur bæjarsjóðs Fjallabyggðar var um 160 miljónir króna á
síðasta ári og framkvæmdir á vegum bæjarins voru um 440 miljónir króna og verða 315 milljónir á
árinu 2018. Þess vegna er mikilvægt að að skoða kostnað við slíka framkvæmd í samhengi við tekjur,
framkvæmdir og almenna stöðu bæjarsjóðs.
Nokkuð ljóst er að gervigras er það sem koma skal og er fastlega reiknað með að flestir
knattspyrnuleikir hér á landi verði leiknir á gervigrasi innan fárra ára. Fjallabyggð verður því að huga
að því fara í þessar framkvæmdir fyrr eða seinna. Þá verður að telja til tekna að ef af framkvæmdum
verður þá sparast miklir peningar sem annars hefðu farið í viðhald á núverandi aðstöðu á
Ólafsfjarðarvelli.
Við hjá H-listanum settum ekki gervigrasvöll í okkar stefnuskrá en í henni stendur samt sem áður;
"Við ætlum að taka til hendinni og mæta þeirri uppsöfnuðu þörf sem komin er varðandi uppbyggingu
íþróttamannvirkja.
Knattspyrnuvöllurinn er eitt þeirra íþróttamannvirkja sem komin er á kostnaðarsamt viðhald og
gervigrasvöllur er því partur af framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja. Hvernig það er svo gert með
tilliti til nýtingar annarra íþrótta eða ástundunar verður að skoða vel ofan í kjölinn því hlúa þarf að
öðrum íþróttum einnig. Ekki viljum við kasta til höndunum og byggja nýjan völl nema vanda vel til
verka. Það hyggst H-listinn gera. Enda teljum við þetta mikilvægt málefni en verkefnin eru margvísleg
og okkur ber ævinlega að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi.Veljum H-listann fyrir skynsamlega
lendingu fyrir alla.
Andri Viðar Víglundsson
6. sæti H-listans