Fimmtudaginn 17. mars var Aðalheiður S. Eysteinsdóttir útnefnd bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2022. Er það í 13. sinn sem bæjarlistamaður er útnefndur í Fjallabyggð.

Athöfnin fór fram í menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði og voru á sama tíma afhendir formlega styrkir til menningarmála og styrkir til hátíðarhalda fyrir árið 2022.

Vel var mætt á athöfnina. Ólafur Stefánsson formaður markaðs- og menningarnefndar setti hátíðina og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi flutti ávarp, afhenti styrkina ásamt Ólafi og  bæjarlistamanni viðurkenninguna.

Í ár var  úthlutað styrkjum að upphæð kr. 5.750.000.- og skiptast þeir þannig: Í flokki einstakra menningartengdra verkefna kr. 2.700.000.-   og í flokknum styrkir til hátíðahalda kr. 3.050.000. 

Við athöfnina voru flutt glæsileg tónlistaratriði.  Fram komu dúettinn Edda Björk Jónsdóttir sópran og Hörður Ingi Kristjánsson sem lék á píanó. Fluttu þau tvö lög. Þá komu einnig fram Stúlli og Danni, Sturlaugur Kristjánsson og Daníel P. Daníelsson og fluttu þeir einnig tvö lög. 

Að lokinni athöfn bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar.

Fjallabyggð óskar styrkhöfum velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru og Aðalheiði innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2022.

Myndir á athöfninni tók Albert Gunnlaugsson og veitingar voru frá Aðalbakaríi á Siglufirði.

Sjá fleiri myndir á vefsíðu Fjallabyggðar.

Forsíðumynd/ Albert Gunnlaugsson