After Eight kaka
- 250 g suðusúkkulaði
- 175 g smjör
- 2 tsk nescafé (instant kaffiduft)
- 2 dl sykur
- 4 egg
- 1 ½ tsk vanillusykur
- ½ tsk lyftiduft
- ½ dl hveiti
Glassúr
- 25 g smjör
- 3/4 dl rjómi
- 200 g After Eight
Hitið ofninn í 175° og smyrjið 24 cm form.
Brjótið súkkulaðið í minni bita og setjið í pott ásamt smjörinu. Bræðið við vægan hita og hrærið reglulega í á meðan. Takið pottinn af hitanum og látið blönduna kólna aðeins.
Myljið kaffiduftið þannig að það verði fínmalað (gott að nota mortél til verksins). Hrærið sykri, eggjum og kaffidufti í súkkulaðiblönduna og hrærið þar til deigið er slétt. Blandið vanillusykri, lyftidufti og hveiti saman og sigtið ofan í súkkulaðideigið. Hrærið þar til deigið er slétt.
Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í 55-60 mínútur.
Glassúr: Setjið smjör og rjóma í pott og hitið að suðu. Takið af hitanum og setjið After Eight plöturnar í pottinn. Hrærið þar til blandan er slétt.
Takið kökuna úr forminu og breiðið glassúrinn yfir.
Berið kökuna fram með rjóma og jarðaberjum.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit