Í kjölfar umræðu um fyrirtæki sem hafna því að taka við reiðufé af viðskiptavinum benda Neytendasamtökin á að í ágúst 2019 sendu samtökin fyrirspurn til Seðlabanka Íslands um hvort það væri heimilt. Í svari bankans segir meðal annars:

„Samkvæmt lögum nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands eru peningaseðlar og mynt sem Seðlabanki Íslands lætur gera og gefa út lögeyrir í allar greiðslur hér á landi með fullu ákvæðisverði, sbr. 3. gr. laganna. Hins vegar er ekkert sem bannar seljanda vöru og þjónustu að krefjast þess að greiðsla sé innt af hendi með tilteknum hætti, hvort sem sú krafa er að einungis sé greidd með reiðufé eða rafrænum hætti.“

Þannig telur Seðlabanki Íslands að seljendum sé ekki óheimilt að hafna að taka við greiðslum í reiðufé. Neytendasamtökin hafa ekki tekið málið lengra að svo stöddu, en benda á að samtökin hafa átt fulltrúa greiðsluráði Seðlabankans, hvar framtíð greiðslumiðlunar, meðal annars framtíð reiðufjár hefur verið til umræðu. Í greiðsluráðinu er það skýr afstaða Neytendasamtakanna að tryggja verði jafnan aðgang að greiðslumiðlun óháð stétt og stöðu. Meðal annars benda samtökin á að jaðarsettir hópar verða verst úti þegar höft eru sett á reiðufjárnotkun.

Skoða á vef Neytendasamtakanna.