Síldarminjasafn Íslands verður áfram opið gestum, þrátt fyrir samkomubann, vegna útbreiðslu COVID-19.

Ákvörðun þessi er tekin til samræmis við tilmæli heilbrigðisyfirvalda. Ekki verður tekið á móti hópum sem telja 100 eða fleiri gesti á meðan samkomubannið er í gildi, heldur verður fjöldi gesta takmarkaður með tilliti til fyrirmæla stjórnvalda. Í rúmgóðum safnhúsum okkar geta gestir haft hæfilega fjarlægð á milli sín á meðan gengið er um sýningarnar.

Samkomubannið hefur þau áhrif á starfsemi safnsins að opnun nýrrar útisýningar sem unnin hefur verið í samstarfi við Byggðasafnið í Gamvik í Norður Noregi og átti að vera þann 1. apríl nk. hefur verið frestað. Vikulegum ljósmyndasýningum á Skálarhlíð er slegið á frest þar til félagsstarf eldri borgara hefst á nýjan leik. Þá hefur bátasmíðanámskeiði sem átti að fara fram vikuna 30. mars – 3. apríl nk. jafnframt verið frestað um óákveðinn tíma.

Á meðan heimsfaraldur kórónaveiru geisar er lögð aukin áhersla á þrif í húsakynnum safnsins, umfram venjubundna ræstingu. Allir helstu snertifletir eru sótthreinsaðir reglulega og góð aðstaða til handþvotta og notkunar handspritts tryggð fyrir bæði gesti og starfsfólk.

Sem fyrr leggur starfsfólk safnsins sig fram við að taka vel á móti öllum gestum safnsins – en mun jafnframt sýna varkárni og fylgja tilmælum heilbrigðisyfirvalda að hverju sinni í einu og öllu.