Árið 2018 byrjaði Hafrannsóknastofnun í samvinnu við Biopol á Skagaströnd og grænlensku náttúrufræðistofnunina (GINR) að merkja hrognkelsi á fæðuslóð á víðáttumiklu hafsvæði í Norðaustur-Atlantshafi. Rannsóknir síðustu ára hafa skilað margs konar þekkingu um hrygningu hrognkelsa og far þeirra á grunnslóð en skortur er á upplýsingum um lífshætti þeirra áður en þau koma að ströndum Íslands til hrygningar.
Í alþjóðlegum uppsjávarrannsókna- leiðangri í júlí, sem beinist einkum að makríl, sýna yfirborðstog með flotvörpu að hrognkelsi er að finna samfleytt um nær allt Norðaustur-Atlantshaf ef frá er skilið svæðið suður af Íslandi (1. mynd). Við vitum hinsvegar ekki hvort hrognkelsi í Noregshafi hrygna við Ísland eða Noreg, sem dæmi. Markmið merkinga í leiðangrinum er því að greina far hrognkelsa, stofnsamsetningu, vaxtarhraða og hversu lengi þau halda sig á fæðuslóð áður en þau skila sér til hrygningar. Þá er mögulegt að merkingarnar og aðrar niðurstöður leiðangurssins muni nýtast til að meta nýliðun og þannig gera kleift að spá fyrir um stærð næstu hrygningargöngu.
Í heild voru 761 hrognkelsi merkt árin 2018 og 2019. Alls 7 fiskar hafa verið endurheimtir, 5 grásleppur og 2 rauðmagar (2. mynd). Eitt hrognkelsanna endurheimtist fjær merkingastað en áður hefur sést. Það var merkt í suðurhluta Irmingerhafs og endurheimtist við Langanes í 1230 km fjarlægð. Fyrra metið var 587 km. Þessar frumniðurstöður sýna að fæðuslóð grásleppu sem hrygnir við Ísland er bæði í Irmingerhafi og Íslandshafi. Til að auka umfang þessara rannsókna er vonast til þess að Norðmenn taki þátt í þeim frá og með árinu 2021.
Þessi rannsókn byggir á því að sjómenn skili inn merktum grásleppum. Þóknun upp á 5000 kr er veitt fyrir að skila inn heilum fisk með merki til Hafrannsóknastofnunar eða Biopol.
Forsíðumynd: Afli hrognkelsa (kg) í stöðluðum yfirborðstogum með flotvörpu í alþjóðlegum uppsjávarleiðangri í júlí 2019.
Heimild og myndir af vefsíðu Hafrannsóknarstofnunar.