Trölli.is fékk eftirfarandi spurningu frá lesanda:
Er mjög áhyggjufullur vegna sumarhúsa á Siglufirði og Fjallabyggð. Það er eins og verið sé að óska eftir fólki á gönguskíði.
Ætlar Fjallabyggð eitthvað að gera til að koma í veg fyrir að bærinn fyllist af fólki þessa viku?
Trölli sendi spurninguna til Fjallabyggðar. Elías Pétursson bæjarstjóri svaraði að bragði og eru honum færðar þakkir fyrir vandað svar sem er eftirfarandi.
“Á þessari stundu er í gildi samkomubann sem setur fólki nokkuð ríkar skorður hvað varðar hópasöfnun og fyrirkomulag samskipta á öllum sviðum. Sóttvarnalæknir og aðrir sem um ástandið véla hafa hins vegar ekki talið ástæðu til að setja á samgöngubann, mitt mat eftir að hafa hlustað á útskýringar þeirra er að það sé skynsamleg ákvörðun.
Hins vegar hefur þríeykið svokallaða lagt að fólki að leggjast ekki í ferðalög og dvelja frekar heima enda verði samkomubann við lýði um komandi páska. Enn sé alsendis óvíst hvenær aðgerðum verði aflétt og varlega verði að fara svo annar faraldur blossi ekki upp. Eða svo vitnað sé beint í ummæli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á upplýsingafundi almannavarna
„Varðandi páskana, við höfum sagt að fólk hugi að því að ferðast innanhúss, eins og einhver sagði. En við hvetjum fólk að minnsta kosti til að fara ekki í löng ferðalög eða mikið um landið, halda sig heima um páskana.“
Ljóst er í mínum huga að tilmæli Víðis varðandi páskahelgina eiga einnig við um aðrar helgar á meðan hið fordæmalausa ástand sem nú ríkir stendur yfir. En á sama tíma er jafnljóst að ekki er hægt að loka fyrir gestakomur hingað í Fjallabyggð, eina sem við getum gert er að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar og skynsemi þeirra sem hingað koma.
Vona að þetta svari spurningu þinni.”
Elías Pétursson
Bæjarstjóri
Fjallabyggð
Hér má nálgast upplýsingar um reglur sem gilda í yfirstandandi samkomubanni.