Tuttugu þúsundasti Akureyringurinn fæddist föstudaginn 14. apríl kl. 7.44, stúlkubarn sem vó 13 merkur.

Foreldrarnir eru Þórey Erla Erlingsdóttir og Alexander Ottó Þrastarson.

Allt hefur gengið eins og í sögu hjá litlu fjölskyldunni. Þetta er fyrsta barn foreldranna, vær og fögur stúlka sem mun hljóta nafnið Rebekka Rún Alexandersdóttir.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri heimsótti litlu fjölskylduna og kom færandi hendi með fallegan blómvönd, nuddsamfellu frá Cuddle-Me, Lýðheilsukortið og silfurskjöld sem á er letrað nafn barnsins, fæðingardagur og hamingjuóskir frá Akureyrarbæ til litlu stúlkunnar með að vera tuttugu þúsundasti Akureyringurinn.

„Ég óska ykkur innilega til hamingju með litlu stúlkuna sem er tuttugu þúsundasti íbúi Akureyrarbæjar. Við viljum fagna því alveg sérstaklega, það er risastór áfangi fyrir okkur að vera orðin þetta mörg og dásamlegt að þessi litla stúlka skuli vera númer tuttugu þúsund. Ég vona að hún dafni vel og guð og gæfa fylgi henni alla tíð,“ sagði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á heimasíðu Akureyrar.

Mynd/akureyri.is