Bæjarblaðið: Siglfirðingur – 1923 

Dýrasti maður bæjarins

 mun vera Matthías. Hann tók upp á þeim skratta, að leggja saur og skolpleiðslu út í Álalækinn svo að bæjarstjórnin, sem hvergi má saur sjá, neyddist til að áætla 10 þús. kr. í lok á lækinn. Viðbúið er að önnur 10 þús. fari til undirbúnings og eftirkasta, og kostar hann þá bæinn jafnmikið og allir ómagarnir til samans.

Þessi dularfulli, ósýnilegi “Ála-bæjar-klóak-lækur” hefur verið til vandræða í yfir 100 ár. Fáir núlifandi Siglfirðingar hafa séð hann, en flestir eflaust heyrt talað um hann. Á forsíðumyndinni hér ofar, hefur pistlahöfundur teiknað inn farveg Álalæksins í grófum dráttum, inn á á mynd sem er lánuð frá Kortasjá fjallabyggðar og styðst ég þar við, meðal annars heimilir úr gömlum bæjarblöðum sem Siglfirski sögumaðurinn Steingrímur Kristinsson hefur safnað saman á sínum heimildasíðum, en hann gefur okkur einnig eigin eftirfarandi lýsingu á þessum vandræðalæk:

Lífið á Sigló: Laugardagur 2. október 2004 
— Álalækurinn. 
Ég rakst grein um Álalækinn í blaðinu Fram frá 19. júní 1920. Það gefur augaleið að barátta verkfræðinga og starfsmanna bæjarins núna í dag árið 2004, eru ekki fyrstu átökin sem lækurinn á í við þessa aðila. Þeir sem eru í yngri kantinum vita e.t.v. ekki hvað og hvar Álalækurinn er, en þetta er lækur sem kom (og kemur enn, en nú undir yfirborði jarðar) ofan úr fjallinu, hann lá suður með Hvanneyrarbrautinni norðan Þormóðsgötu, niður að Lækjargötu og suður í núverandi Bátahöfn. Þarna rann skólpkerfi  bæjarins ofanjarðar að hluta og var þessi lækur opinn t.d. með fram hluta af Hvanneyrarbrautinni, allt til 1950 minnir mig, en rann þá ofan í brunn, sem var staðsettur við vesturenda Ránargötu, sem skilaði læknum svo neðanjarðar, svipaða leið og hann rann áður ofanjarðar

Undirritaður fann eina gamla teiknaða kortamynd, sem í rauninni tengist meira dýptarmælingum í höfninni, en sjálfum læknum, en farvegur hans, úr fjallinu og suður alla Eyrina, er teiknaður inn í kortið.

Á þessu korti má einnig sjá og frá því er sagt, að Álalækurinn, eða eldri hvísl úr honum, hafi skilað miklum leirframburði í tjarnar / mýrlendis svæði sem var lengi vel til á svæðinu norðan við Mjölhúsið stóra. Svona tjarnir voru til víðs vegar á Þormóðseyrinni. Tjarnargata, sem leiðir okkur að Hafnarbryggjunni, dregur nafn sitt af einni slíkri tjörn og Lækjargata, fékk sitt nafn frá nálægð sinni við Álalækinn ósýnilega.

Þetta ofannefnda mýrarsvæði, sést vel á þessari ljósmynd frá 1930/31 og ef rýnt er vel í myndina, er hægt að sjá móta fyrir gömlum farveg Álalæksins.

Í gömlum bæjarblöðum er oft minnst á þennan vandræða Álalæk og 1920 er mikið verið að agnúast út í ósómann og lyktina sem virðist fylgja þessum læk. Sem rennur í suðurátt, gegnum alla, nú ört vaxandi Eyrarbyggðina.
Allt og ekkert endar í þessum læk, með von um að það skili sér að lokum sjálfkrafa til sjávar. Svo er ekki og er hér mælt með árlegri hreinsun og einnig að líklega sé best að breyta braut Álalæksins og láta hann renna í áðurnefnda tjörn og þaðan beint út í Hvanneyrarkrókinn. Sem sagt, hlífa Eyrinni fyrir þessum ósóma Álalæk.

Það er líklega of seint í rassinn gripið, því nokkrum árum seinna, virðist það vera þannig að þessi ...dýri Matthías. Sem tók upp á þeim skratta, að leggja saur og skolpleiðslu út í Álalækinn, er greinilega ekki sá eini á Eyrinni sem tengir heimilisskolpið sitt við Álalækinn.

1924 er ekki talið, að til sé nokkur önnur lausn, en að byggja yfir Álalækinn og láta hann þannig hverfa ásjónu okkar.

Siglfirðingur – 1924 
1. árgangur 1923-1924, 26. tölublað:

S k ó l p r æ s i n.

Byrjuð er nú vinna við Álalækinn. Á að lækka farveg hans um fullan meter og steypa yfir hann boga. Er það fyrsti liðurinn í fyrirhuguðu skólpræsakerfi bæjarins og gert ráð fyrir, að í hann verði lagðar leiðslur úr öllum efri hluta bæjarins. Frá neðri hlutanum er gert ráð fyrir að leiða skólpið austur af eyrinni.”

Seinna sama ár, í 40 tölublaði Siglfirðings birtist okkur auðþekkt vandamál sem á eftir að fylgja þessari Álalækjasögu í 100 ár í viðbót.

Álalækurinn.

Að honum er alltaf unnið af miklu kappi og stundum daga og nætur. Náttúran sjálf er svo góð að senda vatn með hverju flóði inn í gryfjurnar, til að veita fátækum verkalýð utan af landinu atvinnuna, við að pumpa, — og það er býsna drjúgt þegar hægt er að koma því svo fyrir, að sama vatninu er pumpað aftur og aftur —
þá er þetta nokkurskonar EILÍFÐARVÉL!

 Nú er að koma »skorsteinn« upp úr miðri Aðalgötunni, svo borgarar bæjarins eiga hægt með að finna »reykinn af réttunum« þarna niðri í jarðgöngunum. Gárungarnir deila um það, hvort heldur fjósin og kýrnar eða frú Guðrún muni orsaka það, að verkið gengur svo rólega við »Haugasund« en að honum er uppbygging sem engin þó að fullu metur og varla næst í verkfræðing sem veit eða gerir Flóvent betur, — sagði einn sem fram hjá gekk í dag.

Álalækurinn og húsið Haugasund!

Þessi mynd og texti þar neðar, gefur okkur góða mynd af ferðalagi Álalæksins gegnum miðbæ Siglufjarðar.

Mynd lánuð frá Siglfirska sögumanninum Leó Ólasyni, úr frásögn hans: “Haugasund á Siglufirði var eitt af húsunum í hjarta bæjarins.”Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins. ATH. Endurvinnsla á myndgæðum með gervigreind: Steingrímur Kristinsson.

“...Húsið Haugasund stóð þar sem nú er þekkt sem Ráðhústorg og á svipuðum stað og styttan af Gústa guðsmanni stendur núna. Á myndinni hér að ofan má sjá það hægra megin við Aðalgötuna, en vinstra megin er Bíóið líklega nýlega byggt þegar myndin er tekin. Nær virðist svo vera nýbyrjað að byggja hús Kaupfélagsins undir Kjörbúð og Kjötbúð, sem í dag hýsir Siglósport..

.”..Húsið mun upphaflega hafa verið flutt á staðinn og sett á staura vegna þess að á sínum tíma rann Álalækurinn um það svæði þar sem húsið stóð. “

Álalækjasaga frá 1934

Siglfirski sögumaðurinn Steingrímur Kristinsson, segir hér frá ævintýralegum Álalækja- raunum föður síns:

“Pabbi var á leið til vinnu, sennilega ekki til að sýna kvikmyndir í Nýja Bíó, en erindi átti hann í bæinn, ásamt forvitni vegna fregna um þetta mikla flóð sem gekk yfir eyrina Dagana 26. og 27. október 1934 – 

Hann var í bússum og gekk suður Túngötuna og litaðist um víða og meðal annars hvernig ástandið væri við Nýja Bíó, þar sem hann stafaði hjá Thorarensen. Þar var kjallarinn undir Bíó Barnum fullur af sjó, en enginn sjór inn í sjálfu húsinu. Hann hélt svo heimleiðis og fór leiðina um Lækjargötu og stefndi svo á skágötuna frá Lækjargötu upp á Túngötu og svo heim í hús hans og mömmu við Mjóstræti 1. Þegar hann átti eftir um 50 meta að “Skágötunni,” vaðandi í sjónum og þar var varla bússufært og fór hann því varlega, svo ekki skvettist ofan í bússurnar. 

Þá allt í einu sökk hann á bólakaf, en náði að svamla upp á yfirborðið, og náði fótfestu. 

Ástæðan fyrir þessu óhappi var sú að á að minnsta kosti einum stað, var op yfir Álarlæknum, sem á þessum tíma var kominn í jörð. Ofan á opinu var tréhleri yfir opinu, sem var ferkantaður um 1 fermetri að flatarmáli. (man sjálfur eftir þessum hlera sem unglingur
Hlerinn hafði flotið upp og horfið, en þar sem sagt, allt var fullt af sjó, þó var þar niðri enginn straumur, svo það bjargaði honum, en blautur varð hann!

Þessa sögu sagði mamma mér, nokkrum árum síðar, er ég var kominn til vits og ára.
Ég er fæddur þetta sama ár, 1934.”

Og loksins fær maður að sjá þennan fræga Álalæk..

… þó ekki nema smá bút af honum.

Pistlahöfundur fær að vitna í sjálfan sig og hér koma upplýsingar sem gefur okkur smá hugmyndir um hverskonar vandræði hafa fylgt Álalæknum:

“Aðalgatan er lokuð við Lækjargötu. Verið er að endurnýja skolplagnir og fleira í Lækjargötunni.
Neðst til vinstri á myndinni sést hinn sögufrægi Álalækur, en hvelfing án botns var steypt yfir þennan læk sem rann í gegnum alla eyrina hér áður fyrr, áður en fyllt var yfir hann og hús og götur byggð á eyrinni.
Bæjarstarfsmenn sögu, að þó að þessi lausn hefði enst okkur vel þá væri nú kominn tími til að lækurinn færi í nútíma rör, það rennur skolp úr húsum í hann og svo er líka rangur halli á honum á kafla sem hefur valdið bakflæði í stórum rigningarveðrum, eins og flóðið við Alþýðuhúsið í fyrra sumar.

P.S. Af hverju hét þessi lækur ÁLALÆKUR? Liðaðist hann um eyrina eins og áll eða gengu álar upp í þennan læk? Einhver sem veit meira um þennan læk?” Þessum spurningum sem ég kasta út í loftið sumarið 2015, hef ég ekki enn fengið svör við.

Reyndar fékk ég þessa áminningu, skömmu eftir birtingu, um að ég hafi reyndar séð Álalækinn áður:

Mín persónulegu kynni og minningar um Álalækinn…

… og þær tengjast þessum eftirminnilega og yndislega manni.

Ég var svo lánsamur að hafa fengið að vinna með Jóni á Hóli og mörgum öðrum frábærum og skemmtilegum köllum sem voru að vinna hjá bænum. Ég þoldi ekki að vera inni á sumrin og sú reynsla sem ég fékk í bæjarvinnunni var ómetanleg. Ég var handlangari hjá Jóni á Hóli sem vissi allt um skolprör bæjarins og hjá Ella Gústa í vatninu líka.

Þeir Jón og Elli voru svo klárir og með allt í hausnum, það brást ekki þegar þeir sögðu:
Strákar grafið þið hér…...gerðu kross með tánum og það brást ekki að við komum beint niður á brunnlok eða krana. Ótrúlegt.

Sjá meira hér um Jón og Ella:
Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !
sksiglo.is | Greinar | 27.03.2017 | Jón Ólafur Björgvinsson | Lestrar 1686 | 

Á þessum unglingsárum mínum (ca 1974-78) var unnið mikið við að endurnýja og steinsteypa götur út um alla bæ og samtímis sinna viðhaldi á klóakrörum, göturæsaleiðslum o.fl. Í minningum mínum gat Jón á Hóli, bölvað þessum Álalæk í sand og ösku, enda var þetta ekki hans uppfinning og líka samtímis, fundist að stundum væri lagt of mikil vinna í að tengja klóakleiðslur, frá sumum húsum, frá gamla Álalæknum og yfir í nýja brunna.

Vandamálið var að enginn vissi í rauninni hvaða hús voru tengd við Álalækinn. Ekki einu sinni Jón sjálfur og er þá langt gengið, fátt sem hann ekki vissi. Það voru ekki til neinar teikningar og húseigendur höfðu eflaust í áratugi tengt sig þangað, sem styðst var að grafa niður klóakrör.

Já, þetta er hálfskrítin saga um gamlan læk, sem breyttist í niðurgrafinn dularfullan skolplæk og hefur alla tíð síðan verið til vandræða, en líklega eru bæjaryfirvöld á lokametrunum með að ná stjórn á þessum sögufræga vandræðalæk:

Heimasíða Fjallabyggðar 19.05.2022
Fjallabyggð óskar eftir tilboðum í endurnýjun á yfirfallslögn Álalækjar á Siglufirði.

Rjúfa þarf núverandi yfirborðsfrágang og grafa fyrir og leggja nýja yfirfallslögn frá dælubrunni við efri enda Gránugötu að smábátahöfn. Nýja lögnin tengist við núverandi lagnakerfi norðan dælubrunns og kemur í stað núverandi Álalækjarræsis sem leggst af. Verktími er frá 15. september 2022 til 30. nóvember 2022.

Sjá einnig meira hér varðandi t.d. skondnar Heilbrigðissamþykktir o.fl. frá 1920, sem tengjast þessari Álalækjasögu:

Klonedyke Norðursins 1920 – Skondnar reglugerðir!

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson 
Í góðri samvinnu við Siglfirska sögumennina:
Steingrím Kristinsson og
Leó Ólason

Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd o.fl.:
Mynd lánuð frá Kortasjá Fjallabyggðar. Endurunnin af pistlahöfundi.
Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
ATH. Endurvinnsla á myndgæðum, í eldri lósmyndum er gerð með gervigreind af Steingrími Kristinsyni.
Aðrar myndir eru skjáskot af greinum, fengin til láns frá tímarit.is.