Mikil ófærð er víða á Norðurlandi og flestir fjallvegir lokaðir enn einu sinni vegna veðurs og snjóflóðahættu.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur ræðir um ástandið á facebooksíðu sinni í dag, segir hann þar meðal annars.

“FLESTIR VEGIR ÓFÆRIR NORÐANLANDS, Vatnsskarð og Þverárfjall, Skagafjörður utan Hofsós og meira að segja er ófært á milli Akureyrar og Dalvíkur! Svo ekki sé talað um flesta vegi norðan Vaðlaheiðarganga, allt austur í Egilsstaði og Seyðisfjörð.

Takið líka eftir rauðum punkti í Héðinsfirði. Vegstubburinn þar á milli gangna er kolófær. Myndin úr vefmyndavél í Héðinsfirði. sýnir m.a. hraðskilti við veginn sem er við það að fara á kaf. Áætla að úrkoman sem fallið hefur frá því um miðnætti á utanverðum Tröllaskaga hafi numið tugum millimetra, 30-60 mm og sums staðar meira til fjalla.

Héðinsfjörður Skjáskot/Vegagerðin

Siglfirðingar og Ólafsfirðingar eru því alveg lokaðir inni og sama má segja um Dalvík. Dregur úr ofankomu í kvöld, en það skefur enn fram á nóttina. Gengur hins vegar alveg niður seint í nótt og í fyrramálið.

Merkilegt að ekki skuli vera meira um þetta fjallað s.s. í netmiðlum og fréttum RÚV?”

Skjáskot/Vegagerðin

Forsíðumynd: Halldór Gunnar Hálfdánsson