Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) kallar eftir umsóknum í alþjóðlega verðlaunasamkeppni um nýsköpun fyrir sjálfbæran landbúnað og matvæli. Viðfangsefnið að þessu sinni er nýsköpun til að umbreyta matvælakerfum (e. „Innovation to transform food systems“). Einstaklingar, einkafyrirtæki og stofnanir á heimsvísu eru hvött til að skila inn nýsköpunarverkefnum með skýrum niðurstöðum sem stuðlað hafa að aukinni sjálfbærri þróun á sviði umhverfis-, fjárhags- og félagsmála.
Skilafrestur á umsóknum er til 19. mars 2021 og er verðlaunafé alls tæpar 8 milljónir króna. Verðlaunasamkeppnin er nú haldin í annað sinn. Að baki henni standa FAO og alríkisstjórn Sviss.