Niðurstöður árlegrar þjónustukönnunar Gallup voru kynntar í bæjarráði í gær en könnunin leiðir meðal annars í ljós að 85% bæjarbúa eru ánægð með að búa á Akureyri og hefur ánægjan aukist frá fyrra ári.

Heilt yfir virðast íbúar Akureyrar vera ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins og sem fyrr eru það sorphirða, aðstaða til íþróttaiðkunar og umhverfismál sem skora hæst. Mest óánægja mælist með skipulagsmálin á Akureyri líkt og í hinum stóru sveitarfélögunum.

Í samanburði við síðustu könnun mælist marktækur munur til hins betra á ánægju fólks með að búa á Akureyri og með aðstöðu til íþróttaiðkunar. Athygli vekur hins vegar að mat bæjarbúa á þjónustu grunn- og leikskóla bæjarins er lakara nú en var á síðasta ári og er þar um marktækan mun að ræða.

Á fundi sínum fól bæjarráð sviðum og ráðum sveitarfélagsins að taka niðurstöður könnunarinnar sérstaklega til umfjöllunar og úrvinnslu.

Niðurstöður könnunarinnar má skoða hér.

Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og fylgjast með þróun í ólíkum málaflokkum frá ári til árs. Um netkönnun er að ræða og byggt er á 426 svörum frá Akureyri.