Fjöldi fólks á vinnumarkaði á aldrinum 16-74 ára var að jafnaði 208.500 manns á árinu 2019 sem jafngildir 81% atvinnuþátttöku. Þar af var fjöldi starfandi fólks að jafnaði 201.100 og hlutfall þess af mannfjölda 78,1%. Atvinnulausir voru að meðaltali 7.400 manns sem eru 3,5% af vinnuaflinu. Þetta þýðir að atvinnuleysið var nokkru hærra á síðasta ári en árið 2018 þegar það mældist 2,7% og fjölgaði atvinnulausum um 1.800 manns á milli ára. Utan vinnumarkaðar voru um 48.900 eða 19% fólks á aldrinum 16-74 ára.

Tölur um fólk á vinnumarkaði, eins og birtast hér að ofan, eru byggðar á skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (International Labour Organization—ILO). Þær gefa mikilvægar vísbendingar um stefnu hagkerfisins og vinnumarkaðarins en segja þó ekki alla söguna. Tölurnar kalla því á ítarlegri greiningu og frekari sundurgreiningu. Til dæmis er hægt að skoða frekar þá hópa sem eru á mörkum atvinnuleysis, annars vegar þá sem eru á mörkum atvinnuleysis og launaðrar vinnu og hins vegar fólk utan vinnumarkaðarins sem er ekki talið til atvinnulausra.

Þann hóp sem er á mörkum atvinnuleysis og launaðrar vinnu má kalla vinnulitla (e. underemployed part-time), en það er fólk í hlutastarfi sem vill vinna meira.

Þeir sem eru utan vinnumarkaðarins og teljast á mörkum atvinnuleysis eru annars vegar fólk í atvinnuleit sem getur ekki hafið störf innan tveggja vikna og hins vegar fólk sem er ekki að leita að vinnu en er tilbúið að vinna ef tækifæri gefst. Þessir tveir hópar eru almennt ekki taldir hluti af vinnuaflinu þegar atvinnuleysi og virkni á vinnumarkaði eru metin á grundvelli skilgreiningar ILO á atvinnuleysi. Að vissu leyti má líta á þessa hópa sem viðbótarvinnuafl (e. potential additional labour force) á mörkum atvinnuleysis og óvirkni (e. economically inactive).

Hóparnir þrír eiga það sammerkt að leggja minna af mörkum á vinnumarkaði en þeir geta eða vilja. Segja má að þeir séu á vissan hátt vannýtt vinnuafl. Þrátt fyrir að þessir hópar teljist ekki atvinnulausir samkvæmt skilgreiningu ILO endurspegla þeir engu að síður skort á atvinnu, samanber fólk sem sinnir hlutastörfum af því að fullt starf er ekki í boði. Árið 2019 voru tæplega 19.600 manns sem teljast atvinnulausir samkvæmt skilgreiningu en gætu að einhverju leyti talist vannýtt vinnuafl (vinnulitlir) eða mögulegt vinnuafl, sem gerir 7,6% af heildarmannfjölda 16–74 ára.

Af þeim sem voru utan vinnumarkaðar árið 2019 voru um 4.700 reiðubúnir til að vinna byðist þeim starf, eða 9,7%. Um 1.400 manns voru í atvinnuleit en ekki reiðubúnir til að hefja störf eða 2,9%. Samtals voru tæplega 6.200 manns, eða 12,6% þeirra sem eru utan vinnumarkaðar, sem annað hvort voru reiðubúnir að vinna en ekki að leita að vinnu eða voru að leita að vinnu en ekki tilbúnir að vinna.

Af starfandi fólki voru tæplega 45.100 í hlutastörfum eða 22,4% að jafnaði árið 2019. Af fólki í hlutastöfum voru um 6.000 manns, eða 13,4% að meðaltali, sem töldust vinnulitlir. Af heildarfjölda starfandi fólks voru vinnulitlir 3,0% og hlutfall annarra í hlutastörfum var 19,4%.

Um gögnin

Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er hluti af samstarfi ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu um vinnumarkaðstölfræði og byggist á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtak vinnumarkaðsrannsóknarinnar árið 2019 völdust af handahófi 19.958 einstaklingar á aldrinum 16–74 ára sem höfðu lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 19.533 einstaklingar. Alls fengust 12,084 nothæf svör sem jafngildir 61,9% svörun. Allar tölur hafa verið vegnar eftir kyni og aldri. Vikmörk niðurstaðna um atvinnuþátttöku eru ±0,6 prósentustig, hlutfall starfandi ±0,7 prósentustig, atvinnuleysi ±0,4 prósentustig.


Heimild: Hagstofa Íslands
Mynd: pixabay