Þórunn Jónsdóttir

Spænski fréttamiðillinn El País greindi frá því í gærmorgun að alls hafi 17.147 coronaveirusmit greinst á Spáni öllum og hafa 767 dauðsföll, þar af 169 á síðasta sólarhring, verið rakin til COVID-19. Þá kom fram að 939 lægju á gjörgæslu vegna smits og að 1.107 hafa náð sér að fullu. Fyrsta smitið á Spáni greindist þann 31. janúar á eyjunni La Gomera, sem er ein af átta eyjum í Kanaríeyjaklasanum. Stuttu áður höfðu 21 spænskur ríkisborgarar verið sendir frá Wuhan héraði í Kína til Spánar þar sem þeir voru settir í sóttkví, en þeir höfðu þó ekki sýnt einkenni smits.

Smit á Kanaríeyjum

Á síðasta sólahring hafa verið staðfest 65 ný smit á Kanaríeyjum, sem er mesta aukning smita síðan fyrsta smitið kom fram fyrir 49 dögum síðan. Alls hafa greinst 287 smit á eyjunum; 271 þeirra eru virk, 81 þeirra smituðu liggja nú á sjúkrahúsi og fjögur dauðsföll hafa verið tilkynnt, það síðasta í gær

Kanareyski fréttamiðillinn La Provincia greindi frá því í gær að smit skiptust þannig eftir eyjum: 143 á Tenerife, 55 á Gran Canaria, 11 á Fuerteventura, fimm á La Palma, þrjú á La Gomera og þrjú á Lanzarote. Ekki hefur verið gefin út skipting á milli eyja síðasta sólarhringinn. Enn sem komið er anna opinberu spítalarnir á eyjunum álaginu, en fram hefur komið að kven- og barnaspítalinn á Tenerife hefur tekið frá 40 rúm fyrir smitaða. 


Um 2000 próf hafa verið tekin

Kanaríeyjar eru eitt af þeim svæðum Spánar sem eru með hvað fæst greind smit. Frá því að fyrsta smitið greindist hafa verið gerð tæplega 2.000 próf á eyjunum. Á Tenerife var í fyrradag komið upp „hraðprófunarstöð“ þar sem fólk sem telur sig vera smitað getur fengið próf og voru um 40 manns prófaðir fyrsta daginn. Verið er að skoða að setja upp fleiri hraðprófunarstöðvar á eyjunum. 

Verður útgöngubannið framlengt ?

Eins og fjallað hefur verið um á Trölla.is hefur útgöngubann ríkt á eyjunum frá miðnætti aðfararnótt sunnudagsins 15. mars. Bannið felur í sér að fólk sem getur unnið heiman frá sér geri það og ferðir fólks eru takamarkaðar við að sækja vinnu og sækja sér nauðsynlega vöru og þjónustu, s.s. mat, lyf og læknisþjónustu. Þá er leyfilegt að fara út með hundinn, en halda þarf nálægð við heimilið og aðeins má ein manneskja sinna verkinu í einu. Ef ferðast er í einkabíl má aðeins ein manneskja (bílstjórinn) vera í bílnum og í gærmorgun kom tilskipun þess efnis að leigubílar megi nú aðeins ferðast með einn farþega í bílnum, en undantekning er gerð ef fólk þarf að fylgja barni/ungmenni, einstaklingi með fötlun eða öldruðum einstaklingi sem þarfnast aðstoðar. Brjóti fólk reglur útgöngubannsins má það eiga von á sekt á bilinu 100-600 evrur, en heimild er fyrir því að leggja á allt að 30.000 evru sekt fyrir alvarleg brot.

Upphaflega var útgöngubannið sett á í 15 daga, en stjórnvöld hafa nú gefið út að ferðir fólks innan Spánar verði takmarkaðar fram yfir páska. José Luis Ábalos, samgönguráðherra Spánar, hefur sagt að eftir fyrstu 15 daga verði ákveðið hvort bannið verði með sama hætti og verið hefur eða hvort breytingar verði gerðar. Á Kanaríeyjum hefur það þegar þegar sýnt sig að samfélagsleg fjarlægð (e. social distancing) virkar, en á fábýlu eyjunum El Hierro, La Gomera og La Palma hafa fá eða engin smit verið greind, en þar búa fáir og er samfélagsleg fjarlægð þar mikil í daglegu lífi fólks. 

Hótelum lokað

Nú er verið að draga enn frekar úr farþegaflugi og ferjum milli eyjanna og til meginlands Spánar. Fragtflug verður áfram á milli landshluta auk þess sem fólki sem ferðast þarf vegna neyðartilvika, s.s. læknar, fá að fara um borð í flugvélar og ferjur. Þá hefur það verið tilkynnt að stærstum hluta hótela á Spáni verði lokað fyrir 24. mars, en það mun hafa áhrif á um 1.800 hótel og 70.000 starfsmenn þeirra á Kanaríeyjum. Einhver hótel verða þó opin áfram til að sinna heilbrigðisstarfsfólki og öðru framlínufólki. Fólk sem hefur dvalið í skammtímaleiguhúsnæði frá því fyrir útgöngubann og þarf ekki að nýta sameiginleg rými, þ.e.a.s. getur hlýtt útgöngubanninu og haldið sig innandyra, getur haldið kyrru fyrir. Þeir sem dvelja á hótelum þurfa að finna sér annað úrræði eða hreinlega binda endi á fríið og koma sér heim. 

Síðasta flugið til Íslands á morgun

Samkvæmt hagstofu Kanaríeyja dveljast á eyjunum um milljón ferðmenn á hverjum tíma í mars og apríl, sem eru síðustu mánuðir háannatímans. Ferðafólk hefur flykkst út á flugvöll síðustu daga til að komast til síns heimalands áður en Spánn lokast fyrir flugumferð, en um 280-300 flug hafa verið að fara frá flugvöllunum hér á eyjunum á degi hverjum. Síðasta skipulagða flugið frá <Kanaríeyjum til Íslands fer frá Gran Canaria laugardaginn 21. mars. Talið er að nú séu um 80-90.000 ferðamenn á eyjunum sem ætli að bíða af sér ástandið.

Mikilvæg símanúmer

Ef grunur leikur á veirusýkingu er fólki beint á að leita ekki til heilsugæslu eða læknis heldur hringja í eitt af eftirfarandi númerum:

900 112 061 (fyrir spænskumælandi).

902 102 112 (fyrir ensku enskumælandi).

112 (almennt neyðarnúmer).