Albert Einarsson skrifar:

Það var með nokkrum kvíða að ég ákvað að setja í bókarkorn myndir frá æskuárum mínum, og það í ljóðaformi. Ég hef fengið margar kveðjur góðar og mörgum hefur líkað bókin um Abba, svo engu var að kvíða. 

Ég er enn Abbi og verð alltaf – annað er ekki hægt. 

Siglufjörður gaf mér gott veganesti þegar ég hélt á brott til útlanda til náms. Það var talsvert stórt skref að lyfta sér yfir fjöll og haf og fara til borgar með miklu fleiri íbúa en á öllu Íslandi – og ég hafði ekki farið til Reykjavíkur nema í stuttar heimsóknir, svo Akureyri var fjölmennasti bærinn sem ég þekkt eftir 4 ár í menntaskóla. En Siglufjörður var samt stundum sem stórborg þar sem ægir saman framandi fólki, framandi tungumálum. Þetta framandi yfirbragð var spennandi og hvatti mig til að fara utan.

Ljóðabókin um Abba er annars vegar hugsuð, eins og nafnið ber með sér, sem augnablik, myndir í ljóðaformi og hinsvegar sem þakklæti til Siglufjarðar fyrir veganestið sem samfélagið gaf mér. Veganesti þarf ekki alltaf að bragðast vel til að gera manni vel. Mig langaði sem sagt til að segja takk Sigló!

Ég hef úr fjarlægð fylgst með vexti og viðgangi Ljóðaseturs Íslands, framtaki sem auðvelt er að hrósa og á sér engar hliðstæður. Eftir samtal við Þórarinn, forsprakka setursins, var ákveðið að bókin yrði til sölu í Ljóðasetrinu og að söluandvirðið gengi óskipt til starfsemi setursins. Þannig yrði bókin um Abba til raunverulegs gagns.

Þess vegna er um að gera að kaupa bókina – panta hana á fésbókarsíðu setursins – senda skilaboð. (https://tinyurl.com/ye4kbjge) Verð kr 2000.- (má borga meira!).

Það var mér mikil ánægja að fá að lesa úr bókinni í útgáfuhófi í Ljóðasetrinu í byrjun júlí og sömuleiðis að kynna bókina og lesa upp á dvalarheimili aldraðra, Skálarhlíð. 

Takk, Þórarinn, fyrir skipulagningu og söng og spil. 

Abbi – ljóðamyndir frá liðinni tíð á Siglufirði, fjallar eins og bókarheitið gefur til kynna um nýliðna gamla daga. Abbi – hver? 

Ég fæddist í ysta verkamannabústaðnum, kjallaranum í syðri enda. Mamma, Þórunn Guðmundsdóttir – alltaf kölluð Dúdda, var verkakona og vann við ýmis störf. Hún saltaði síld á sumrum, vann í fiski, vann við ræstingar í barnaskólanum og um mörg ár í þvottahúsinu á sjúkrahúsinu. Pabbi, Einar M. Albertsson var skósmiður að mennt og vann sem skósmiður um tíma, um skeið vann hann á skrifstofu Sósíalistaflokksins í Suðurgötu 10, hann var stöðvarstjóri á bílastöðinni og svo lengst af póstmaður á Pósthúsinu. Þau voru bæði að vestan, pabbi úr Álftafirði og mamma úr Önundarfirði og voru auðvitað í Vestfirðingafélaginu, eins og svo margir aðrir Siglfirðingar. 

Pabbi kom til Siglufjarðar 1944 til að ljúka bóklega hluta iðnnáms, en verklega hlutanum, hinu eiginlega iðnnámi í skósmíði lauk hann hjá Guðlaugi skósmið á Hellissandi. Bóklegi hlutinn í Iðnskóla Siglufjarðar tók þrjá mánuði og var meiningin að hann færi aftur á Hellissand eða eitthvað annað, en hann flutti aldrei frá Siglufirði. Mamma kom til Siglufjarðar um svipað leyti í atvinnuleit og fékk vinnu á veitingastaðnum Gildaskálinn. Þau pabbi og mamma höfðu ekki hist áður, en þekktust samt og kynnst gegnum bréfaskrif á vegum Ungmennafélaganna. Mamma bjó síðan alla tíð á Siglufirði, eða þar til hún flutti á dvalarheimilið Hvamm á Húsavík í nágrenni við dóttur sína. 

Við bjuggum á Hvanneyrarbraut 62 í um 10 ár og svo fluttum við upp á Hólaveg 15. 

Ég er sem sagt sonur Dúddu og Einars. Minn Siglufjörður er enn sá sami Siglufjörður og ég kynntist og ólst upp í. Samfélagið er auðvitað annað og þó svo að það sé ekki lengur hægt að fá sér Valash eða Bananas hjá Schiöth (eða sjutt eins og við sögðum) og ís á Bíóbarnum hjá Oddi Thor, sem var besti ísinn á landinu öllu, þá er margt annað komið í staðinn.