some kind of peace vekur heimsathygli, keppir við Billie Eilish og Harry Styles

Föstudaginn síðastliðinn gaf Ólafur Arnalds út nýja plötu, some kind of peace, sem á þeim stutta tíma sem liðinn er frá útgáfu hefur hlotið magnaðar viðtökur.

Það dró heldur betur til tíðinda fyrr í vikunni þegar kom í ljós að some kind of peace er í toppbaráttu á breska vinsældalistanum, sem þykir afar óvenjulegt fyrir nýklassíska, nánast ósungna plötu, og keppir þar við marga af helstu listamönnum heims s.s. Billie Eilish, Elton John og Harry Styles.

Í lok vikunnar kemur í ljós í hvaða sæti some kind of peace endar en það eitt að hafa náð inn á listann er mikill árangur og í fyrsta sinn sem að Ólafur nær inn á topp 40 listann í Bretlandi.

Auk þess hefur ein framsæknasta útvarpsstöð Bretlands, BBC 6 Music, valið some kind of peace sem plötu dagsins og hin virta plötubúð Rough Trade valið hana sem plötu mánaðarins.

Helstu tónlistarblöð og -vefsíður heims hafa sömuleiðis keppst við að hampa plötunni, en úrval helstu dóma má finna hér að neðan.

some kind of peace er persónulegasta verk Ólafs hingað til.

Útkoman er undurfalleg og viðkvæm plata sem ber öll aðalsmerki listamannsins.

Ólafur Arnalds hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra tónlistamanna og hefur undanfarin áratug sannað sig sem eitt áhrifamesta nútímatónskáld heims. Auk þess að hafa gefið út fjölda margar plötur undir eigin nafni hefur Ólafur líka leikið með rafsveitinni Kiasmos og samið tónlist fyrir kvikmyndir og þáttaraðir á borð við Broadchurch (BAFTA-verðlaun fyrir bestu tónlist) og Defending Jacob — en fyrir þá síðarnefndu hlaut hann á dögunum tilnefningu til Emmy-verðlauna.

Ólafur kemur fram á stafrænni tónlistarhátíð Iceland Airwaves, Live from Reykjavík, 13. nóvember. Hægt að nálgast miða á tónleika Ólafs hér.

some kind of peace kemur út á vegum Mercury KX og Öldu Music á Íslandi.

Úrval dóma:

Sydney Morning Herald – 5/5
´Breathtaking vulnerability´

NPR All Songs Considered
´The most impactful record I’ve heard this year.´

Clash – 9/10
´A late year treasure that shouldn’t be overlooked´

The Line of Best Fit– 9/10
‘Amidst a chaotic year, Ólafur Arnalds delivers a unique serenity’

MOJO – 4/5
‘Icily cinematic, Arnalds has a widescreen future’

Sunday Times
´A safe haven in troubling times´

Paste Magazine
´Incredibly touching and full of wonder.´

The Independent 
´Immersive´ 

Nothing But Hope and Passion
´A beautiful ode to life´

Beats per Minute –
´Simply gorgeous´

Aðsent.