Nýverið birtist grein um rannsókn á svefnheilbrigði nemenda við Menntaskólann á Akureyri í ritrýnda tímaritinu Sleep and Breathing. Laufey Hrólfsdóttir deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk er meðhöfundur greinarinnar.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort svefnmynstur tengist andlegri heilsu ungmenna. Svefninn var mældur á hlutlægan hátt með viðurkenndum mælitækjum og lagðir voru fyrir staðlaðir spurningalistar um andlega líðan og lifnaðarhætti/venjur ungmennanna.

Einungis 18% þátttakenda sváfu 8 klukkustundir eða meira á skóladögum sem er ráðlagður svefntími einstaklinga á þessum aldri. Þátttakendur fóru marktækt seinna að sofa um helgar eða 1 klukkustund og 47 mínútum sem var ástæða alvarlegrar klukkuþreytu hjá 71% þátttakenda.

Helstu niðurstöður sýndu einnig að 15,4% voru dæmigerðar kvöldmanneskjur. Sá hópur sofnaði mun seinna á virkum dögum og greindist með marktækt meiri klukkuþreytu. Kvöldmanneskjurnar glímdu einnig frekar við svefnleysi, meiri dagsyfju og þunglyndiseinkenni miðað við aðra hópa.