Matvælastofnun hefur kært til lögreglu alvarlega vanrækslu á búfé á nautgripa- og sauðfjárbúi á Vesturlandi.
Um er að ræða eitt umfangsmesta og alvarlegasta dýravelferðarmál sem komið hefur upp hér á landi. Á þriðja tug nautgripa og um 200 fjár, auk 5 hænsna, drápust eða voru aflífuð vegna skorts á fóðri og brynningu. Vörslusvipting hefur farið fram á um 300 kindum sem eftir eru á bænum og þeim tryggð fóðrun og umhirða og unnið er að ráðstöfun fjárins. Matvælastofnun hefur bannað bóndanum tímabundið allt dýrahald uns dómur fellur í málinu. Öllum hræjum hefur þegar verið fargað á viðurkenndum urðunarstað.
Búið hefur þrisvar sinnum fengið eftirlitsheimsókn frá Matvælastofnun á síðastliðnum sex árum, ekki komu fram alvarleg frávik við fóðrun eða aðbúnað í þeim heimsóknum. Síðasta reglubundna skoðun fór fram vorið 2021. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi.