“Mamma! Mamma! Pabbi! Við erum rík! Við erum rík!“ Hrópaði Bergþóra litla með fangið fullt af glitrandi gulli sem hringaðist í ótal hlykkjum og flæktist í peysunni hennar. Pabbi hennar sat svartur upp fyrir haus eftir erfiðan dag í smiðjunni og góflaði í sig kvöldmatnum með nasablæstri. Hann leit áhugalaus upp og á dóttur sína og síðan á okkur Einar vin minn sem stóðum undarlega kímnir og niðurlútir fyrir aftan hana og teiknuðum hringi með tánum í gólfið.
“Hvern andskotann hafið þið verið að gera núna!?” gelti pabbi Einars svo fiskur og kartöflur ultu út um fullan munninn. Sjaldan hafa jafn miklar gleðifréttir vakið jafn litlar undirtektir. Það var raunar ástæða til. Allstaðar, þar sem við vinirnir komum nálægt voru einhver lymskubrögð í tafli. Fólk var farið að ganga út frá því sem vísu. Þetta var enn eitt dæmið um slíkt og endaði með löðrung á vangann, sem var ekkert smáræði, því sá gamli var gamall boxari og var enn að bæta sér upp niðurlægingu síðasta bardagans, sem lagt hafði hann í endanlega valinn. Fyrir okkur fylgdi þessu þó undarleg fullnægja og stolt. Við vinirnir sátum eftir þetta á grindverki með logandi rauða vanga og suð fyrir eyrum og sögðum ekki orð. Brostum bara glaðir og horfðum á hvorn annan með djöfulleg klókindi í augum. Við vorum ellefu ára og nokkuð ánægðir með lífið.
Við höfðum unun af að skipuleggja hrekki og snúa á fólk. Þetta var oft svo úthugsað og vísindalegt að mig undrar það enn í dag. Svo var það þetta algera virðingarleysi okkar fyrir fullorðna fólkinu. Það var eins og okkur væri alveg sama um refsingarnar. Við bárum enga virðingu fyrir þeim sem framkvæmdu þær og tókum þær því ekki nærri okkur. Þess þyngri refsingar því minni virðing. Ánægjan af laumuspilinu bætti löðrunga og rassskelli margfalt upp.
Sennilegast var þetta virðingarleysi sprottið af því að okkur hafði lærst að það var lítið að marka fullorðið fólk. Það bramlaði allt og braut og jós úr sér svífiyrðingum undir áhrifum áfengis og lofaði síðan gulli og grænum skógum daginn eftir. Nýju hjóli, ferðalögum og fatnaði, en stóð svo aldrei við neitt af því. Það bölvaði og ragnaði og sló mann svo á munninn eða lét mann bíta í sápu ef maður gerði slíkt hið sama. Pabbi var vanur að segja: “Hættu þessu andskotans bölvi drengur!” Ég skil ekki hvaðan í helvítinu þið hafið þennan andskota?” Þegar stórt er spurt er jú jafnan fátt um svör.
Elsti bróðir Einars dýrkaði Hitler og heimtaði að við heilsuðum sér að Nasistasið í hvert sinn sem við mættum honum. “Heil Hitler!”
Á fylleríum spilaði hann grammafónplötur með ræðum Hitlers svo bárujárnið skrölti utan á húsinu. “Ænen Júden slagten svæne húnden únt sjæse idioten gassen brennen im der hulen!!” fannst okkur Hitler garga móðursýkislega. Hitler þagnaði síðan snöggt og örstutt þögn varð að undanskildu arinsnarki plötunnar. Svo ærðist lýðurinn af fögnuði og hljómaði eins og suð í risastórum klósettkassa. “Sieg Heil! Sieg Heil! Sieg Heil!!! Við þetta gengum við svo gæsaganginn fram og aftur um stofuna á eftir stóra bróður og sungum “Horst Wessel.” Okkur fannst þetta náttúrlega alger della. Hvernig var hægt að bera virðingu fyrir fólki sem lét svona.
En aftur að fjársjóðnum. Þessi dramatíska fjársjóðssaga átti sér upphaf í tilviljanakenndum sálarrannsóknum. Einhver hafði fengið okkur með sér í andaglas en ég man ekki hvernig það kom til. Þetta var þó mögnuð reynsla. Við blésum öll í kross yfir opið á glasinu og snérum því svo þrjá hringi réttsælis yfir höfðinu áður en það var lagt á handskrifað andaborðið. “Er andi í glasinu?” var spurt og glasið hreyfðist áreynslulaust undir fingrum okkar á orðið “JÁ.” Allir þrættu fyrir að hreyfa glasið sem staf fyrir staf afhjúpaði okkur svör við huldum leyndardómum. “Verð ég rosalega ríkur?” “Dey ég einhverntíma?” “Hvað heitirðu?” “Er einhver stelpa skotin í mér?” og svo framvegis. Við fundum hárin rísa á burstaklipptum kollunum og Bergþóra kjökraði af hræðslu. Svo var þetta búið og við vorum engu nær um neitt. Svörin voru, mildilega sagt, afar loðin.
Þetta gaf okkur Einari hinsvegar stórsnjalla hugmynd. Við byrjuðum undirbúa hana af mikilli nákvæmni daginn eftir. Ég bjó til fjársjóðskort með því að brenna brúnirnar á vélritunarblaði, krumpa það vel og lengi, maka á það sósulit og ryki og skrifa fornlegar leiðbeiningar með augnabrúnablýantinum hennar mömmu. Neðst var auðvitað fjársjóðskort. Þetta var algert meistarastykki, enda varð það að atvinnu minni síðar meir að gera nýja hluti gamla og lúna í leikmunagerðinni. Við rúlluðum þessu plaggi upp og bundum borða af konfektkassa utan um það. Loks földum við það undir fúinni gólffjöl í skúr inni í Hallaporti, sem var lítill undirgangur í næsta húsi við mig. Einar stal flóka af koparspæni undan rennibekknum í smiðju föður síns og vafði hann inn í skítuga strigalufsu. Þetta földum við svo undir fúnum drumb við hjall niður í dokkunni, sem var fornt bátalægi út við sjó.
Svo kom blekkingin. Við tældum Beggu í andaglas, þar sem óskaplega nákvæmar upplýsingar komu úr andheimum um fjársjóðinn mikla í dokkunni og kortið í Hallaportsskúrnum. Jú, andinn kallaði þetta sömu nöfnum og við og gerði sömu stafsetningarvillur og við, enda voru það við sem hreyfðum glasið. Begga var rauð af æsingi og gullæðisglampi var í augum hennar. Hún náði varla andanum í kappsamri leit sinni þegar út var komið. Hún var hinsvegar svo hlandvitlaus að að okkar mati, að við þurftum næstum að benda henni á kortið fyrir rest. Að lokum fann hún fjársjóðinn og hljóp gráti næst af gleði alla leið heim. “Við erum rík.” Við erum rík.” Okkar fyrsti skipulagði glæpur var veruleiki.
Annað launráð okkar uppgötvuðum við á fjörulalli þegar við fundum tvær netakúlur úr sinki. Við höfðum heyrt að útgerðarfélagið keypti slíkar kúlur. Við fórum því samkvæmt bendingum karlanna í beitingaskúrunum til Bjartar gamla, sem sá um lager félagsins. Hann skrifaði fyrir okkur beiðni upp á svaka upphæð að okkur fannst, sem leysa mætti út á skrifstofunni. Hann bað okkur fyrst að fara fram á lager með kúlurnar því hann var svolítið fótalúinn.
Það hefði hann betur látið ógert. Þegar við opnuðum lagerdyrnar blöstu við okkur fjársjóðir Salómons konungs í fjalli af sinkkúlum sem náði upp í rjáfur. Augu okkar mættust í þessu lymskufulla bliki sem kom okkur svo oft í vandræði. Við lásum hugi hvors annars án þess að mæla orð.
Eftir þetta byrjuðum við á því að fara á lagerinn og náðum í knippi af kúlum. Síðan fórum við með þær til Bjartar, sem lét okkur hafa beiðni sem skrifstofan breytti í peninga. Við urðum ríkustu gæjarnir í götunni það sumarið. Undarlegt nokk þá grunaði gamla manninn aldrei neitt og aldrei komst upp um glæpinn….fyrr en nú.
Ég finn til hálfgerðrar skammar í dag þegar ég hugsa um þetta. Það er ljótt að stela, en okkur fannst við aldrei vera að því vegna þess að við tókum aldrei peningana beint og fannst þetta sanngjarnt gjald fyrir snilld okkar. Víst markar þessi hugsun fleiri en unga drengi eins og skýrast sést á nútíma viðskiptaháttum. Við hugsuðum bara svolítið eins og bankar.
Bergþóru var þó ljótt að blekkja og fá hana eitt augnablik til að halda að hryllingur hins alkóhólíska veruleika væri að baki og bjartari tímar í augsýn. Það er líka sagt að það leiði til óhamingju að hafa andaheima í flimtingum. Ég er ekki fjarri því að á tímabili hafi ég þurft að gjalda fyrir það. Aumingja Bergþóra fór allavega ekki varhluta af þessum álögum.
Hún sat lengi í fangelsi fyrir morð, sem ég held að hún hafi ekki framið. Alræmd gerð af miskunnarlausri slúðurpressunni þar til ginnungagap eiturlyfjanna tók hana frá okkur.