Andri Hrannar

Þann 26. apríl síðastliðinn sagði trolli.is frá því að heppinn Siglfirðingur vann tæpar 40 milljónir í Lottó laugardaginn 13. apríl, einn með allar tölur réttar, á miða sem hann keypti í Olís á Siglufirði. Vinningshafinn er enginn annar en Andri Hrannar Einarsson, þáttastjórnandi í þættinum Undralandið, á FM Trölla. Sjá frétt: Sex ár frá fyrsta þætti

Andri hefur átt erfitt fjárhagslega í gegnum árin og er auk þess öryrki eftir æxli sem hann fékk við mænuna fyrir löngu síðan.

Í mjög einlægu viðtali í þættinum Tíu Dropar á FM Trölla, sem var á dagskrá í janúar s.l., mörgum vikum áður en Lottó-vinningurinn kom til, sagði Andri frá lífshlaupi sínu og talaði um hvernig það er að vera öryrki á Íslandi og hvernig þunglyndi hefur fylgt þessu og gert líf hans nánast óbærilegt á köflum. Þess má geta að líf öryrkja á Íslandi er algjört harðræði, fullar bætur með heimilisuppbót eru 240.000 kr. í útborguðum peningum á mánuði en ef öryrki heldur heimili með öðrum er greiðslan mun lægri.
Viðtalið má heyra í fréttinni “Hugðist taka sitt eigið líf”.

Það er því augljóst að vinningurinn kemur sér afar vel fyrir Andra Hrannar.

Trölli.is fékk Andra til að segja frá því hvernig það bar til að hann keypti Lottó-miðann, og hvernig hann komst að því að hann hafði hlotið fyrsta vinning og hvernig tilfinning það var að uppgötva vinninginn:

Andri Hrannar er umsjónarmaður þáttarins “Undralandið” á FM Trölla.

“Föstudagskvöldið 12. apríl var sýning á leikritinu Bót og betrun hjá Leikfélagi Fjallabyggðar, ég tók þátt í sýningunni.

Rétt áður en ég renndi yfir á Ólafsfjörð til að leika skaust ég á Olís á Sigló til að fá mér einn hamborgara svo ég væri ekki svangur á sýningunni. Þegar ég var að fara að renna kortinu í gegn, sá ég að lottó potturinn stefndi í 40 milljónir og ákvað að smella mér á einn miða.

Andri Hrannar að leika í sýningu Leikfélags Fjallabyggðar, Bót og betrun

Ég hafði oft keypt miða og geymdi þá yfirleitt í bílnum og lét fara yfir þá á bensó þegar ég mundi eftir því.

Laugardaginn 13. apríl var síðan önnur sýning kl. 16 og eftir hana keyrði ég heim ásamt Víbekku systur. Ég var svo ekkert að spá í miðanum þannig séð, hann var bara í bílnum. Ég lagði mig svo eftir að ég kom heim og vaknaði stuttu eftir útdráttinn. Þegar ég leit á símann minn þá sá ég að það var verið að kommenta og like-a nokkuð mikið á frétt á Trölli.is. Ég opnaði fréttina og sá að hún fjallaði um lottóvinning sem hafði komið á miða sem var seldur á Olís á Siglufirði. Ég mundi þá eftir miðanum mínum sem var úti í bíl, svo fóru af stað hugsanir sem innihéldu, humm gæti það verið?, neee það getur ekki verið og svo framvegis.

Lottómiðinn

Ég ákvað bara að smella mér í sturtu áður en ég náði í miðann og þessar hugsanir héldu áfram. Neei ég er ekkert að fara að vinna þetta, auðvitað gæti það verið ég, nei nei þú ert ekkert svo heppinn. Ég kláraði sturtuna og klæddi mig og kíkti á tölurnar á Lotto.is, ég sá strax að það voru 3 tölur í röð sem er frekar óvanalegt. 25, 26 og 27. Ég stökk útí bíl og náði í miðann og á leiðinni inn þá leitaði ég að þremur tölum í röð en sá þær ekki strax, en svo allt í einu sé ég þessar þrjár tölur, þær súmmuðust pínu út og ég fann smá hita í brjóstkassanum, en ég reyndar mundi ekki hinar tvær tölurnar svo ég fór aftur inn á Lottó.is og bar miðann minn saman við tölurnar og viti menn, ég var með allar fimm tölurnar réttar! 7 25 26 27 32.

Ég var bara .. vóóó ok ég vann og það hríslaðist um allan líkamann sælutilfinning. Hvernig tilfinning er það? Well ég er ekki viss en ég fann smá doða um allan líkamann og svo eins og ég væri með náladoða í höfuðleðrinu! Já! Ég fokking vann!!! Ég fokking vann! Ég fór niður til mömmu og pabba og settist niður hjá þeim og bara brosti, svo sagði ég þeim að ég hafi verið að vinna tæpar 40 milljónir í lottóinu. Vá ég var ennþá bara dofinn og trúði þessu varla. Ég og mamma fórum aftur yfir tölurnar og það var ekkert um að villast! Ég var að vinna 40 millur!

Eftir þetta fór ég upp í bílskúr og fékk mér kaffi og sígó og starði útí tómið, tilfinningarnar útum allt og ég skellti uppúr annað slagið.. Fokk shit fokk ég var að vinna í lottóinu.

Síminn Andra. Hann hafði þetta á orði þegar hann afhenti Íslenskri Getspá miðann: “Kannski kaupi ég mér nýjan síma þar sem minn er bæði orðinn gamall og með brotnum skjá”,  þegar hann var inntur eftir því hvort hann væri farinn að láta hugann reika um ráðstöfun á vinningum.


Ég er búinn að vera í ótrúlega miklum fjárhagsvandræðum svooo lengi og hef átt erfitt með að ná endum saman og þetta hefur haft mikil áhrif á mína andlegu líðan. Þvílíkt sem þetta mun breyta mínu lífi.

 

Svona hefur lífið verið hjá Andra og Francescu. Samskipti í gengum tölvuna, hann á Siglufirði og hún á Ítalíu

Nú getum við, ég og Francesca kærastan mín, verið saman án þess að þurfa að hafa stöðugar áhyggjur af næstu mánaðamótum. Það má segja að síðastliðinn apríl hafi verið nokkuð stór í mínu lífi þar sem ég varð 50 ára þann fyrsta apríl og þrettánda apríl fæ ég lottó vinning. Ég er ennþá að meðtaka þetta allt en ég er hamingjusamur og ánægður með lífið, loksins loksins loksins datt lukkan mér í hag.”

Andri Hrannar Einarsson er nú fluttur til Ítalíu, var það ákveðið áður en hann datt í lukkupottinn. Hann og Francesca hafa fengið sér góða íbúð á leigu og líta þau björtum augum á framtíðina. Sjá frétt: Undralandið til Ítalíu

 

Andri Hrannar Einarsson lítur björtum augum á framtíðina

 

Sjá fréttir:

Keypti vinningsmiða hjá Olís á Siglufirði og hlaut  39.383.410 

Siglfirðingur vann tæpar 40 milljónir í Lottó

Siglfirski lottó vinningshafinn í viðtali í Tíu dropum á FM Trölla

Viðtal við miljónarmæringinn Andra Hrannar, á FM Trölla