Stálheppinn Siglfirðingur vann tæpar 40 milljónir í Lottó. Vinningshafinn sem vann rétt tæpar 40 skattfrjálsar milljónir í Lottóinu laugardaginn 13. apríl sl. hefur nú heimsótt Íslenska getspá í Laugardalnum, með vinningsmiðann góða meðferðis. Þessi verðmæti miði var keyptur hjá Olís á Siglufirði.

Það má í raun segja að tilviljun réði því að miðinn var keyptur en maðurinn sem var svangur á ferðinni kom við hjá Olís til að fá sér að borða þegar hann sér á skjánum hjá Lottókassanum að potturinn stefndi í 40 milljónir og ákveður hann þá að grípa miða með og sér hann svo sannarlega ekki eftir því. “Kannski kaupi ég mér nýjan síma þar sem minn er bæði orðinn gamall og með brotnum skjá” sagði vinningshafinn þegar hann var inntur eftir því hvort hann væri farinn að láta hugann reika um ráðstöfun á vinningum “en svo ætla ég líka að leyfa fólkinu mínu að njóta vinningsins með mér” sagði hann enn fremur.

Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir öryrkja, íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af sölu Lottós.

Trölli.is og FM Trölli óskar vinningshafanum hjartanlega til hamingju.