Eins og fram kom í frétt Matvælastofnunar fyrr í þessari viku greindist skæð fuglainflúensa H5N5 í fyrsta skipti í ketti sem drapst fyrir jól. Í gær greindi svo Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum skæða fuglainflúensu H5N5 í öðrum ketti. Sá köttur var af heimili á Seltjarnarnesi. Hann hafði verið veikur með svipuð einkenni og fyrri kötturinn; hita, slappleika og taugaeinkenni (krampa og stífleika), áður en hann var aflífaður. Líklegast er að hann hafi smitast af fuglshræi. Aðrir kettir eru á heimilinu og þeir eru frískir. Engin tenging er milli kattanna sem hafa greinst með fuglainflúensu. Ekkert bendir til þess að fuglainflúensan smitist milli katta.
Töluvert margar tilkynningar hafa borist Matvælastofnun um dauða villta fugla að undanförnu, sérstaklega um grágæsir á höfuðborgarsvæðinu. Skæð fuglainflúensa H5N5 greindist í þessari viku í álftum og grágæsum.
Matvælastofnun mælir með að fólk reyni eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að kettir þeirra komist í snertingu við fugla.
Tekið skal fram að smithætta fyrir fólk af völdum fuglainflúensu H5N5 er mjög lítil en þó er fólk minnt á að gæta hreinlætis í umgengni við dýr og umhirðu þeirra. Á vef embættis landlæknis má finna almennar leiðbeiningar fyrir fólk um fuglainflúensu.
Á vef Matvælastofnunar er mikið af gagnlegum upplýsingum um fuglainflúensu í dýrum. Þar er líka mælaborð sem sýnir fjölda og staðsetningu villtra fugla sem sýni hafa verið tekin úr og niðurstöður rannsókna á þeim.
Minnt er á að í gildi eru reglur um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglainflúensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi.
Matvælastofnun ítrekar tilmæli til almennings um að tilkynna stofnuninni um villta fugla og villt spendýr sem finnast dauð, þegar ástæða dauða er ekki augljós. Það er best að gera með því að skrá ábendingu á heimasíðu Matvælastofnunar. Mikilvægt er að láta mynd fylgja tilkynningunni og gera vel grein fyrir staðsetningu, helst með því að skrá hnit. Nánari upplýsingar eru á líka á síðu Matvælastofnunar um hvað fólk skuli gera ef það finnur veika eða dauða villta fugla eða villt spendýr. Þar er m.a. tekið fram að hræ skuli látin liggja nema ef þau eru þannig staðsett að nauðsynlegt sé að fjarlægja þau. Ef það er gert skal hræið sett í plastpoka, án þess að það sé snert með berum höndum.