Arthur Ragnarsson opnar sýningu sína Sólstöður í sal Myndlistarfélagsins á Akureyri Kaupvangsstræti 12.
Opið er laugardaginn 22. og sunnudag 23. júní kl.14.00-17.00.
Opið verður einnig helgina 29. – 30. júní kl.14.00-17.00.

Nú stendur sólin hæst á himni. Um leið breytir Jörðin gangi sínum um sólina og hallar sér aftur hægt og rólega fram að jólum. Hreyfing jarðar knýr hringrás lífsins og þessi breyting hefur mótað vistkerfi og lífríki frá uppafi tíma. Frá því að við mannfólkið fórum að hugsa og spá í stjörnurnar hafa þessi mögnuðu skil fangað hug okkar. Áður var talið að mörkin á milli heims mannsins og sviðs hins yfirnáttúrulega væru þynnri á sólstöðum.

Á sýninguni má sjá vinnubrögð í grafít og akrýl á striga. Myndefnið er sprottið úr hugarflugi og skynrænum vinnubrögðum og felur í sér spurningar um samskipti mannsins við náttúruöflin og lífríki jarðar.

Arthur Ragnarsson er fæddur á Siglufirði 1958 og ólst upp við músík og myndlist í vinnustofu föður síns. Sem unglingur var Arthur á vertíðum til sjós milli námsára og lagði land undir fót þegar færi gafst um fjöll og firnindi. Arthur lauk námi frá Myndlista- og Handíðaskólanum í Reykjavík 1981 og fann fyrir knýjandi þörf á að kynnast nýjum menningarheimum. Hann tók með sér bassann út og starfaði með ýmsum hljómsveitum í Svíþjóð um 10 ára skeið. Í Gautaborg kom hann inn á leikhússviðið og var við störf þar í 25 ár sem sviðsmyndahönnuður. Jöfnum höndum vann hann að grafískri hönnun og myndskreytingum fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir. Síðustu árin hefur Arthur gegnt fullu starfi sem sýningahönnuður við Listasafn Gautaborgar.
Arthur er í samvinnu við gallerí í Þýskalandi, á Íslandi, í Svíþjóð og í Finnlandi. Þekktasta verk listamannsins er skúlptúrinn Síldarstúlkan sem stendur á bryggju við Síldarminjasafnið á Siglufirði. Verkið var afhjúpað af forsætisráðherra íslands 2023. Um þúsund manns voru viðstödd athöfnina og var listaverkið afhent Fjallabyggð og Síldarminjasafni Íslands til varðveislu.