Í kvöld sunnudaginn 29. júlí verður FM Trölli með beina útsendingu frá tónleikum Ásgeirs Trausta í Ásbyrgi, Laugarbakka. Útsendingin hefst kl. 20.30 og spjalla þau Tröllahjón Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason saman og spila tónlist þar til tónleikarnir hefjast.

FM Trölli er eina útvarpsstöðin sem fengið hefur að útvarpa beint frá tónleikaferð Ásgeirs Trausta, Hringsól.

Tónleikunum lýkur kl. 23.00 og er uppselt.

Hlusta má á tónleikana hér: HLUSTA eða á FM 102.5 á Hvammstanga og nágrenni en 103.7 á Tröllaskaga.

Á facebooksíðu Elds í Húnaþingi má meðal annars finna þessar upplýsingar um tónleikanna.

“Ásgeir heldur í fyrsta skipti í tónleikaferðalag um Ísland þar sem hann kemur fram á alls 14 tónleikum dagana 17. júlí til 1. ágúst. Á tónleikunum frumflytur hann m.a. glænýtt efni sem mun prýða hans þriðju plötu sem væntanleg er í upphafi næsta árs.

Um lágstemmda og hlýlega tónleika er að ræða þar sem rödd Ásgeirs fær að njóta sín en Ásgeir kemur fram ásamt Júlíusi Róbertssyni félaga sínum. Ásgeir gaf út sína aðra plötu, Afterglow, í maí á síðasta ári og hélt í kjölfarið í stíft tónleikaferðalag um Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Því tónleikaferðalagi lauk um páskana í Ástralíu.

Nú er hann mættur aftur í hljóðver til að taka upp sína þriðju plötu fullur af orku. Þá kviknaði löngun til þess að ferðast um Ísland að sumri til með gítarinn einan að vopni til að prufukeyra hið nýja efni í bland við eldri lög. Einfalt skyldi það vera, rétt eins og við upphaf ferils Ásgeirs árið 2012 þegar hann og Júlíus vinur hans léku á fjölmörgum tónleikum við hin ýmsu tækifæri. Það fer nefnilega allt í hringi og stundum er gott að leita aftur í ræturnar, í upphafið, áður en næsti hringur hefst, samanber Hringsól”

Frétt og mynd: Kristín Sigurjónsdóttir