Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra undirritaði í gær samning við Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu um aukið eftirlit með heimagistingu og rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi. Samningurinn felur í sér 30 m.kr. viðbótarframlag til heimagistingarvaktarinnar og er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins á suðvesturhorni landsins. „Það er mikilvægt að halda vel utan um heimagistingu og er þessi samningur liður í þeirri vegferð. Ég vænti mikils af samstarfinu við Sýslumannsembættið,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Markmiðið er að hafa hvetjandi áhrif á einstaklinga til að skrá skammtímaútleigu sína hjá sýslumanni og endurnýja skráningu árlega. Heimagisting umfram 90 daga og 2 m.kr.  flokkast sem atvinnustarfsemi og er lögð sérstök áhersla á eftirlit með gististarfsemi sem kallar á rekstrarleyfi.

Skýrari yfirsýn yfir raunverulegt umfang heimagistingar tryggir rétt skattskil einstaklinga og að lögaðilar sem stunda gististarfsemi afli sér rekstrarleyfis og starfsemin fari þar með að þeim lögum sem um hana gilda. Lagt er upp með að átaksverkefnið sé til eins árs og felur það m.a. í sér að starfsmönnum í heimagistingarvakt verði fjölgað, aukin áhersla lögð á frumkvæðiseftirlit sem og að fylgst verði með notkun skráningarnúmera í markaðssetningu.

Samningurinn er í samræmi við áherslur sem koma fram í frumvarpi sem menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi.

Nánari upplýsingar um skráningu heimagistingar má finna hér.