Lögð fram fyrirspurn Róberts Guðfinnssonar f.h. Selvíkur ehf á 270. fundi skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar vegna fyrirhugaðra breytinga á útliti og starfsemi að Gránugötu 15B á Siglufirði.

Trölli.is hafði samband við Róbert og fékk nánari upplýsingar um áform hans varðandi Gránugötu 15B og sagði hann meðal annars:

“Siglo suites eiga verða ca 20 – 50 fm svítur sem verða seldar til einstaklinga og fyrirtækja. Sigló hótel mun þjónusta svíturnar og leigja þær út fyrir eigendur þegar þeir vilja og eru ekki að nota þær”.

Áætlað er að breyta húsnæðinu í svítur og útlit hússins mun svipa til Sigló Hótels skv. meðfylgjandi drögum að hönnun. Inngangur yrði á norðurgafli hússins og bílastæði í sundinu við norðurenda hússins.

Óskað var eftir umsögn nefndarinnar um verkefnið áður en ráðist verður í frekari hönnun. Einnig er lagt fram minnisblað skipulags- og tæknifulltrúa vegna málsins þar sem rakin er skipulagsleg staða lóðarinnar og hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að þetta yrði að veruleika.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar svarði fyrirspurninni því til að hún fagnar allri uppbyggingu í sveitarfélaginu og tekur ágætlega í erindið en vísar því áfram til umsagnar í hafnarstjórn áður en lengra er haldið.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar tók málið upp á 121. fundi sínum og fagnar þeirri hugmynd sem fram kemur í framlögðum gögnum og telur að vel sé mögulegt að samræma hana þeirri starfsemi sem er á svæðinu. Að því sögðu þá bendir hafnarstjórn á að mikilvægt er að vinna deiliskipulag með þeim hætti að líkur á núningi milli ólíkrar starfsemi verði lágmarkaðar.

Skjáskot af Google Maps – 1. júlí 2021
Skjáskot af Google Maps – 1. júlí 2021

Slóð á Google Maps


Hér að neðan má sjá teikningar af fyrirhugaðri breytingu að Gránugötu 15B á Siglufirði.