Lánastofnunum verður heimilt að hliðra endurgreiðslutíma stuðningslána í allt að sex mánuði til viðbótar við þann frest sem áður var gefinn. Lánastofnunum verður einnig heimilt að lengja endurgreiðslutíma stuðningslána með fullri ábyrgð ríkissjóðs úr tólf mánuðum í allt að átján mánuði. Þetta kemur fram í nýrri reglugerð fjármála- og efnahagsráðherra.

Stuðningslán voru veitt til að aðstoða smærri rekstraraðila sem urðu fyrir tímabundnu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru við að standa undir rekstrarkostnaði. Með breytingunum nú verður lánastofnunum gert kleift að mæta betur stöðu rekstraraðila sem glíma enn við eftirmála tekjusamdráttar vegna heimsfaraldursins.

Veitt voru stuðningslán fyrir 10,1 ma.kr. til 997 lántaka. Fjöldi lántaka hefur greitt inn á stuðningslán og í lok síðasta árs höfðu lántakar greitt upp að fullu stuðningslán fyrir ríflega 1,4 ma. kr. Tíu stuðningslán að andvirði 59 millj. kr. höfðu fallið á ábyrgð ríkissjóðs. Eftirstöðvar stuðningslána námu 7,8 ma.kr. í lok síðasta árs.

Mynd/Golli